[x]
14. janúar 2009

Landgrunnsvefsjá komin í loftið

Orkustofnun hefur opnað Landgrunnsvefsjá.  Vefsjánni er fyrst um sinn ætlað að gefa yfirlit yfir gögn sem tengjast Drekasvæðinu og gera upplýsingar um þau aðgengilegar á vefnum. Opnun vefsjárinnar tengist 1. útboði vegna rannsóknaleyfa á kolvetni á norðanverðu Drekasvæðinu. Íslenskar orkurannsóknir útbjuggu gögn í vefsjána.

Eins og fram kemur á vef Orkustofnunar er í vefsjánni hægt að sjá yfirlitsgögn yfir hafsbotninn og nálgast upplýsingar um rannsóknarleiðangra, einkum hljóðendurvarpsmælingar og fjölgeislamælingar. Einnig má sjá reitakerfi fyrir landgrunnið norðaustur af Íslandi sem og fyrir Drekasvæðið. Markmiðið með vefsjánni er ekki að birta sjálf frumgögnin nema að litlu leyti, heldur auðvelda áhugasömum að nálgast upplýsingar um gögnin. Með vefsjánni er til dæmis hægt að finna hvaða gögn eru til, á hvaða svæðum þau eru, hver aflaði þeirra og hvernig og hvenær gagnaöflunin fór fram. Einnig má finna út hvar hægt er fá aðgang að gögnum. Gert er ráð fyrir að birta síðar í vefsjánni niðurstöður leyfisveitinga til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetna á norðurhluta Drekasvæðisins ásamt yfirliti um þær rannsóknir sem þar verða gerðar, svo sem um boranir.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Orkustofnunar.

Landgrunnsvefsjá