[x]
21. október 2013

Lághitaborun fyrir hitaveitu á Blönduósi og Skagaströnd

Borun holu RR-22 á Reykjum við Reykjabraut. Jarðborinn Saga sá um borunina. Ljósmynd Magnús Ólafsson.Borun holu RR-22 á Reykjum við Reykjabraut lauk 15. október sl. Holan fór í 1000 m dýpi.

Holan var boruð fyrir RARIK vegna hitaveitu á Blönduósi og Skagaströnd og var staðsett um 90 m ofan (sunnan) við holu RR-12. ÍSOR var ráðgjafi RARIK vegna verksins og sá um að staðsetja holuna og annaðist eftirlit með borverkinu. Jarðboranir sá um borunina með jarðbornum Sögu.

Að sögn Magnúsar Ólafssonar, verkefnisstjóra hjá ÍSOR, var holan hitamæld og gert stutt blásturspróf 16. október sl. Í ljós kom að hitinn í holunni var þá tæpar 74°C. Erfitt reyndist að hemja rennslið í holunni og mæla það en ónákvæmar mælingar sýndu að það var um 40 L/s. Eftir um viku verður holan hitamæld á ný og blástursprófuð og á grundvelli þeirra niðurstaðna verður ákveðið hvort ÍSOR leggur til dýpkun holunnar í t.d. 1200 m.

Jarðhitasvæðið á Reykjum við Reykjabraut er aðalvinnslusvæði hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar. Svæðið hefur verið nýtt frá sjöunda áratugnum. Byrjað var að viðnámsmæla árið 1967 og í kjölfarið voru fyrstu sex borholurnar staðsettar. ÍSOR hefur verið ráðgjafi og annast reglulegt vinnslueftirlit frá upphafi.