[x]
18. júní 2007

Kristján Sæmundsson sæmdur riddarakrossi

Forseti  Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdi Dr. Kristján Sæmundsson jarðfræðing, riddarakrossi, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær 17. júní.  Kristján hlaut riddarakrossinn fyrir störf í þágu íslenskra jarðvísinda.
Kristján er í hópi virtustu vísindamanna í heiminum á sviði jarðhita og eldfjallafræði.  Rannsóknir hans hafa stóraukið þekkingu manna á jarðfræði Íslands, uppbyggingu gosbelta, megineldstöðum og eðli jarðhitans.

Árið 1966 lauk Kristján doktorsnámi frá Háskólanum í Köln og vann allan sinn starfsaldur á Orkustofnun og síðan Íslenskum orkurannsóknum, eftir stofnun þeirra árið 2003. Lengst af gegndi hann stöðu deildarstjóra jarðfræðideildar. Auk almennrar jarðfræðikortlagningar víðs vegar um land var aðalviðfangsefni hans jarðhitaleit, bæði á heitum svæðum og ekki síst á svæðum sem talið höfðu verið köld. Hefur hann náð gríðarlegum árangri í öflum jarðhita um allt land. Einnig hefur Kristján stundað ráðgjöf við jarðhitaleit og jarðvarmavirkjanir víða erlendis.

Þess er skemmst að minnast að á Háskólahátíð 21. október 2006 var Kristján kjörinn heiðursdoktor raunvísindadeildar Háskóla Íslands – Doctor scientiarum honoris causa. Áður var hann kjörinn heiðursfélagi bandaríska jarðfræðafélagsins Geological Society of America árið 1993 og fékk heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Wright árið 2003.

Kristján starfar enn sem sérfræðingur í jarðhitamálum og jarðfræði hjá ÍSOR og vonumst við til þess að njóta starfskrafta hans sem allra lengst, landi og þjóð til heilla.