[x]
4. mars 2020

Kristján Sæmundsson heiðraður af Jarðfræðifélagi Lundúna

Kristján Sæmundsson jarðfræðingur. Kristján Sæmundsson jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum hlýtur heiðursverðlaun frá Jarðfræðifélagi Lundúna, The Geological Society of London. Tilkynning þar um var birt á vefsíðu félagsins þann 2. mars sl.

Kristján hlýtur Prestwich Medal verðlaunin en þau voru stofnuð af Sir Joseph Prestwich (1812-1896). Þau voru fyrst afhent árið 1899 og eru einungis veitt á þriggja ára fresti. Kristján hlýtur þessi heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til jarðvísinda. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í London þann 4. júní næstkomandi.

Kristján Sæmundsson fæddist 9. mars 1936. Hann lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Köln í Þýskalandi árið 1966. Doktorsritgerð hans, Vulkanismus und Tektonik des Hengill-Gebietes in Südwest-Island, fjallar um jarðfræði, eldfjallafræði og brotahreyfingar Hengilssvæðisins. Að námi loknu hóf Kristján störf á Jarðhitadeild Orkustofnunar, sem árið 2003 varð að  Íslenskum orkurannsóknum, ÍSOR.   Hann hafði yfirumsjón með jarðfræðikortlagningu og fjölbreyttum rannsóknum tengdum jarðhita.

Kristján Sæmundsson á að baki merkan feril sem vísindamaður á sviði jarðfræði Íslands, eldfjallafræði og jarðhita. Með rannsóknum sínum hefur hann stóraukið þekkingu fólks á uppbyggingu gosbelta og megineldstöðva landsins ásamt upptökum jarðhitans. Jarðfræðikort hans eru með því vandaðasta sem þekkist. Greinar hans og rit um sama efni endurspegla ennfremur yfirburðaþekkingu hans á fræðasviðinu. Niðurstöður rannsókna Kristjáns hafa haft afgerandi áhrif á fræðilegar hugmyndir manna um landrekskenninguna og treyst undirstöður jarðhitanýtingar.

Auk hins fræðilega framlags hefur Kristján um árabil stýrt skipulagðri jarðhita- og kaldavatnsleit, staðsett borholur og stjórnað borverkum. Hann nýtur mikillar virðingar hérlendis fyrir ötult og óeigingjarnt starf sitt við jarðhitaleit fyrir fjölda sveitarfélaga og einstaklinga. Kristján hefur verið helsti ráðgjafi Vatnsveitu Reykjavíkur síðan 1980 og einnig stundað ráðgjöf erlendis, m.a. við jarðvarmavirkjanir á Asoreyjum, í Grikklandi, Kenía, Kína og Tyrklandi.

Prestwich Medal verðlaunin. Kristján er einstaklega ósérhlífinn kennari og ávallt tilbúinn að fræða og leiðbeina öllum sem til hans leita. Hann var stundakennari við jarð- og landfræðiskor á árunum 1971-1980 og verið leiðbeinandi rannsóknarverkefna. Hann á einnig stóran þátt í þeirri færni og þekkingu sem byggð hefur verið upp hjá Íslenskum orkurannsóknum.
Kristján hefur fyrir margt löngu skipað sér í flokk meðal virtustu vísindamanna á sínu sviði og hlotið margar viðurkenningar frá vísindasamfélaginu fyrir framlag sitt. Eftirfarandi má þ.á m. nefna:

  • Heiðursfélagi bandaríska jarðfræðafélagsins, Honorary Fellow of the Geological Society of America, árið 1993.
  • Heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Wright fyrir jarðfræðirannsóknir árið 2003.
  • Heiðursdoktor raunvísindadeildar Háskóla Íslands, árið 2006.
  • Riddarakross, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, árið 2007.
  • Heiðraður í sérútgáfu hjá jarðvísindatímaritinu Journal of Volcanology & Geothermal Research, sem fjallaði um Mið-Atlantshafshrygginn,  árið  2017.
  • Heiðursverðlaun fyrir jarðfræðikortlagningu Jarðfræðifélags Bandaríkjanna, Florence Bascom Award for Geologic Mapping, The Geological Society of America, árið 2018.