[x]
1. nóvember 2005

Jón Jónsson jarðfræðingur látinn

Jón Jónsson jarðfræðingur lést þann 29. okt. s.l. 95 ára að aldri. Jón lærði jarðfræði í Svíþjóð og tók fil. lic. gráðu við Stokkhólms-háskóla 1958. Lokaritgerð hans var um sjávarstöðubreytingar á Íslandi og kísilþörunga í sjávarseti. Jón réðst til jarðhitadeildar Raforkumálastjóra sama ár og hann lauk námi. Verkefni hans voru framan af einkum á sviði neysluvatns- og heitavatnsöflunar víða um land. Hann aflaði sér víðtækrar þekkingar og reynslu á hvoru tveggja. Var mjög til hans leitað þar sem voru hinar stærri vatnsveitur sem margar hverjar bjuggu við bágt ástand á þeim árum. Heitavatnsboranir voru á fyrstu starfsárum Jóns í sókn, og tókst víðast vel til þar sem hann kom að. Líkt og Guðmundur Pálmason, lengst forstöðumaður jarðhitadeildar og samstarfsmaður hans studdi Jón við bakið á yngri mönnum í námi og fól þeim snemma ábyrgðarmikil verkefni í faginu. Jón var um tíma deildarstjóri á jarðhitadeild og staðgengill Guðmundar sem yfirmaður. Um skeið starfaði Jón mikið erlendis á vegum Sameinuðu Þjóðanna, aðallega í Miðameríku, en einnig í Afríkulöndum fyrir aðra. Jón fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu hérlendis, sem eðlilega tengdist störfum hans. Hann varð snemma ráðgjafi Vatnsveitu Reykjavíkur og rannsakaði þá og kortlagði vítt umhverfi vatnsbólanna ofan við bæinn. Þar voru hraun fyrirferðarmikil. Í framhaldi af þeirri vinnu og kortlagningarverkefni í Krýsuvík yst á Reykjanesskaga fyllti hann í bilin á milli og varð úr jarðfræðikort af Reykjanesskaga öllum sem út kom 1978. Jón var að ætt  Skaftfellingur og rannsakaði margt í heimahéruðum, einkum þó hraunin. Hann kom að rannsóknum kringum Hornafjörð á námsárum sínum með sænskum leiðöngrum. Þótt aðalverkefnið væru sandarnir gerði hann þá merkar athuganir á jökulbergslögum í berggrunni sem trauðla verður haggað.  Árið 1980 lét Jón af störfum við jarðhitadeild Orkustofnunar sem þá hét. Hann sinnti þó sem fyrr jarðfræðirannsóknum og ráðgjöf, bæði við heita- og kaldavatnsöflun. Jarðfræðirannsóknir hans beindust þá einkum að Eyjafjöllum og af þeim gerði hann jarðfræðikort og ítarlega lýsingu sem út kom 1989. Upp úr þeirri vinnu spratt hvati til heitavatnsborana sem hann stýrði, fyrst á Þorvaldseyri og síðar á fleiri stöðum undir Eyjafjöllum. Eftir að Jón lét af störfum hjá Orkustofnun var mjög til hans leitað vegna borana fyrir fiskeldisfyrirtæki einkum á Reykjanesi, þar sem bæði þurfti ferskvatn og sjó.  Jón var afar vel máli farinn og skrifaði ljóst og lipurt. Sér þess stað í fjölda greina sem hann birti um rannsóknir sínar og áhugamál, lengst af í Náttúrufræðingnum. Göngumaður var hann harður sem margir okkar yngri jarðfræðinga muna sem fylgdu honum á ferðum.  ÍSOR þakkar Jóni störf hans á sviði jarðhitarannsókna og sendir aðstandendum samúðarkveðjur.