[x]
20. september 2006

Jarðskjálftar við Reykjarfjörð á Ströndum

Jarðskjálftar við Reykjarfjörð syðri á Ströndum nú um daginn virðast hafa komið mörgum á óvart. En það þarf þó alls ekki að að vera óvænt þegar litið er til jarðfræði svæðisins. Mjög öflugt brotakerfi er á svæðinu norðan Steingrímsfjarðarheiðar og allt norður í Reykjarfjörð nyrðri og milli Ísafjarðardjúps og Húnaflóa. Í þessu kerfi eru þrjár til fjórar mismunandi misgengjastefnur. Langalgengasta stefnan er N-S en einnig N20-25°V. Tvær aðrar stefnur eru nokkuð áberandi en þær eru N45°V og N40°A. Umfang þessa sprungukerfis er slíkt að það getur ekki með nokkru móti tengst upphaflegum misgengjakerfum sem tengja má fornum megineldstöðvum. Hér er á ferðinni kerfi sem líkist sniðgengiskerfum í Borgarfirði eða á Miðsuðurlandi. Annað sem er einkennandi er að sum þeirra mynda greinilega misgengisstalla upp á efstu fjöll sem bendir til mjög ungs aldurs og sum þeira reyndar virðast svo ung að þau gætu hafa hreyfst á nútíma. Stærð brotanna er allt frá fáeinum metrum upp í tugi metra. Stallar uppi á fjöllum geta verið 10-15 metra háir. Jarðhiti sem finnst á svæðinu er að mestu tengdur N-S brotunum og sumstaðar sást opnar sprungur í lausum jarðlögum. Þó er það svo að ekki er gert ráð fyrir slíkum atburðum á þessu svæði á þeim skjálftahættukortum sem gefin hafa verið út og vantar töluvert upp á að menn hafi gert sér grein fyrir hvar jarðskjálftahætta er í landinu og hvar ekki. Það þarf að kortleggja svæði þar sem um unga höggun (neotectonics) er að ræða, svæði þar sem tíðni skjálfta getur verið mjög lág (nokkur hundruð ár eða þúsundir ára). Ofangrein svæði er vafalaust töluvert virkt jarðfræðilega en tíðnin getur verið mjög lág. Af stærð misgengisstalla er ljóst að hreyfingar geta verið stórar sem þýðir að skjálftar geta líka verið stórir.