[x]
17. júlí 2020

Jarðskjálftahrina í Eyjafjarðarál 2020

Kortið sýnir jarðskjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu síðastliðin 25 ár. Gögn úr gagnagrunni VÍ.Þann 19. júní hófst mikil jarðskjálftahrina í Eyjarfjarðarál sem enn er í gangi. Þetta er öflugasta skjálftahrinan sem þarna hefur orðið síðan nákvæmar skjálftamælingar hófust á svæðinu upp úr 1993. ÍSOR sér um rekstur nokkurra jarðskálftamæla í Eyjafirði fyrir Norðurorku. Í ljósi aðstæðna var ákveðið að kanna hvernig yfirstandandi jarðskjálftavirkni kemur út á mælaneti Norðurorku. Einnig var ákveðið að athuga hugsanleg áhrif jarðskjálftanna á vinnslusvæði jarðhitans við Hjalteyri.  ÍSOR hefur nú skilað stuttri greinagerð um málið til Norðurorku. Niðurstaðan er sú að mælakerfið stendur undir væntingum og að ekki verður vart við að skjálftarnir hafi áhrif á jarðhitakerfið.

Með greinargerðinni fylgdi kort af hafsbotninum úti fyrir Miðnorðurlandi sem sýnir skjálftavirknina þar á undanförnum áratugum ásamt ýmsum jarðfræðilegum fyrirbrigðum sem þar er að finna. Kortið sýnir hvernig beita má þeim gagnagrunnum og hugbúnaði sem ÍSOR hefur yfir að ráða til að setja fram myndræna lýsingu á þeim náttúruöflum sem þarna eru að verki.

Jarðfræðin

Tjörnesbrotabeltið er svokallað þverbrotabelti þar sem miðhafshryggurinn, sem gengur yfir Ísland, hliðrast frá Norðurlandsgosbeltinu og að Kolbeinseyjarhrygg.  Innan þess eru þrjú þvergengiskerfi, Dalvíkurmisgengið, Húsavíkur-Flateyjarmisgengið og Grímseyjarbeltið, sjá mynd. Kerfin hafa VNV-læga stefnu. Til hliðanna markast brotabeltið síðan af Norðurlandsgosbeltinu í austri og Eyjafjarðarál og Kolbeinseyjarhrygg í vestri.
Þvergengiskerfin eru hvert með sínu móti. Syðst er Dalvíkurmisgengið sem er að mestu á þurru landi og er ekki til umfjöllunar hér.

Húsavíkur-Flateyjarmisgengið er dæmigert sniðgengi með mikilli skjálftavirkni.  Brothreyfingin er fyrst og fremst lárétt þar sem norðurbarmur sprungunnar hefur færst til austurs en suðurbarmurinn til vesturs. Misgengið er allgreinilegt í landslagi, bæði í misgengisstöllum og sprungum. Meginhluti þess er á hafsbotni og nær frá Eyjafjarðarál, þvert fyrir mynni Eyjafjarðar, og þvert yfir Skjálfanda þar sem það gengur á land við Húsavík. Austasti hlutinn er á landi og nær frá Húsavík og austur undir Þeistareyki þar sem það tengist N-S sprungukerfi Þeistareykjakerfisins. Lengd þess er a.m.k. 70 km í sjó og 20 km á landi. Stefna misgengisins er nánast samsíða rekstefnu meginlandsflekanna sitt hvoru megin við það. Þar af leiðandi á lítil sem engin gliðnun sér stað um það. Mjög lítil eldvirkni er því á H-F misgenginu. Þó virðast hafa orðið eldgos í tengslum við  það á fyrri jarðsöguöldum. Þannig virðist Flatey hafa orðið til við hraungos á misgenginu á seinni hluta ísaldar.

Grímseyjarbeltið er allt annars eðlis en H-F misgengið þótt það þjóni sama jarðfræðilega hlutverki, að hliðra gliðnun jarðskorpunnar úr einu gliðnunarbelti í annað.  Það nær frá Kópaskeri og til Kolbeinseyjar, 137 km leið og er nánast alfarið í sjó. Stefna þess er norðlægari en stefna H-F misgengisins og ekki samsíða rekstefnu meginlandsflekanna. Þar af leiðandi er gliðnun um það og henni fylgir eldvirkni. Grímseyjarbeltið  samanstendur af fimm eldstöðvarkerfum sem kennd eru við Mánáreyjar, Skjálfandadjúp, Nafir, Hólinn og Stóragrunn. Eldstöðvarkerfin mynda skástíga fjallgarða á hafsbotni, sem hliðrast frá Tjörnesi til norðvesturs og einkennast af gígum, gossprungum, neðansjávarhraunum og misgengjum. Þau virðast öll hafa verið virk eftir ísöld, misvirk þó. Heimildir eru um tvö eldgos í sjó á Tjörnesbrotabeltinu á sögulegum tíma, þ.e. 1372 (Hóllinn) og 1867 (Mánáreyjar).

Tjörnesbrotabeltið afmarkast til austurs af nyrsta hluta Norðurgosbeltisins, sem teygir sig norður alla vesturströnd Melrakkasléttu. Þar eru víða ummerki unglegrar eldvirkni og jarðskorpuhreyfinga, svo sem móbergshryggir, misgengi og sprungur.
Í vestri afmarkast brotabeltið af Kolbeinseyjarhrygg og Eyjafjarðarál. Kolbeinseyjarhryggur er dæmigerður rekhryggur (eða gliðnunarhryggur) með mikilli eldvirkni og brotavirkni. Gíghólar, gossprungur, neðansjávarhraun og hraunjaðrar setja svip á landslagið, sem er sundurskorið af löngum og miklum misgengjum. Þar er einnig háhitasvæði. 35 km sunnan við Kolbeinsey tekur að draga úr eldvirkninni uns hún hverfur með öllu og Eyjafjarðaráll tekur við. Hann er sigdalur sem stafar af gliðnun jarðskorpunnar án þess að hraunkvika úr iðrum jarðar fylli lægðina.  Mikil misgengi setja svip sinn á svæðið og afmarka Eyjafjarðarál á báðar hliðar. Þau stefna flest nánast N-S en syðst sveigir sprungustefnan til austurs, állinn þrengist og hverfur inn í Húsavíkur-Flateyjar misgengið.

Samantekt

Mót hinna miklu jarðskorpufleka, sem kenndir eru við Evrasíu og N-Ameríku, eru með óvenju fjölbreyttu sniði í Tjörnesbrotabeltinu:

  • Að austan er Norðurlandsgosbeltið sem er eldvirkt gliðnunarbelti.
  • Að norðan er Grímseyjarbeltið sem er eldvirkt sniðgengiskerfi sem tengir gliðnunina, sem er í austurhluta Norðurgosbeltisins, við Kolbeinseyjarhrygg.
  • Að vestan dæmigerður rekhryggur, Kolbeinseyjarhryggurinn, með mikilli eldvirkni.
  • Í framhaldi hans er Eyjafjarðarállinn, gliðnandi sigdalur sem einkennist af brotavirkni og setsöfnun en er án allrar eldvirkni.
  • Í suðri er mjög skýrt afmarkað misgengi, Húsavíkur-Flateyjar sniðgengið sem tengir gliðnunina, sem er í vesturhluta Norðurgosbeltisins, við Eyjafjarðarál.

Kortið sýnir jarðskjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu síðastliðin 25 ár (gögn úr gagnagrunni VÍ). Yfirstandandi jarðskjálftahrina er sýnd með grænum lit og er stærð hvers tákns í réttu hlutfalli við stærð jarðskjálftans, en jarðskjálftar stærri en 4 eru sýndir með rauðum kassa og stærri en 5 eru sýndir með rauðri stjörnu. Eldri jarðskjálftavirkni (1995-2019) er sýnd með ljósgráum lit, en einungis eru sýndir jarðskjálftar stærri en 2. Jarðskjálftar stærri en 4 með gulum kassa og stærri en 5 með gulri stjörnu.
Jarðskjálftar: Veðurstofa Íslands.
Fjölgeisladýptarmælingar: Hafrannsóknarstofnun og Háskóli Íslands.
Jarðfræðikort: ÍSOR