[x]
14. nóvember 2019

Jarðhitaverkefni Íslands í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn fær góða óháða umsögn

ÍSOR hefur unnið með þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins (ÞSSU) og Norræna þróunarsjóðnum (NDF) að mörgum verkefnum er tengjast jarðhitauppbyggingu í Austur-Afríku. Meðal annars að þjálfun starfsfólks og sérfræðinga og beina aðstoð við grunnrannsóknir sem miða að því að nýta jarðhitann á sjálfbærann máta. Verkefnin hafa einnig verið í samstarfi við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Nú hefur óháð þýskt fyrirtæki, GOPA, gert úttekt á þróunarverkefninu sem ÞSSU vann í samstarfi við Norræna þróunarsjóðinn á árunum 2013-2018 og veitt því góða umsögn. ÍSOR var aðalráðgjafi í þeirri vinnu sem náði til landa í sigdal Austur-Afríku, þ.e. Djibútí, Eritreu, Eþíópíu, Kenía, Malaví, Rúanda og Tansaníu í. Í úttektinni kemur m.a. fram að verkefnið hafi leitt til augljósra framfara í viðtökuríkjunum og verið mjög hagkvæmt. Hægt er að nálgast skýrsluna um úttektina hér og sjá enn fremur frétt á vef utanríkisráðuneytisins.