[x]
27. júní 2013

Jarðhitaþjálfun í Rúanda

 Þátttakendur og leiðbeinendur á jarðhitanámskeiðinu um rannsóknir og framkvæmd jarðhitaborana í Rúanda. Ljósmynd Sverrir Þórhallsson.Nokkrir sérfræðingar ÍSOR eru leiðbeinendur á fimm daga jarðhitanámskeiði í Rúanda þessa vikuna. Um er að ræða þjálfun fyrir sérfræðinga frá Orku- og vatnsveitu (EWSA) Rúanda varðandi rannsóknir og framkvæmd jarðhitaborana, "Short Course on Deep Geothermal Exploration". Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna skipulagði námskeiðið sem er hluti af nýju styrktarverkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) á sviði jarðhita í Austur-Afríku með samfjármögnun frá Norræna þróunarsjóðnum (sjá frétt á vef ÞSSÍ www.iceida.is).

Þetta jarðhitanámskeið er fyrsti hluti sex mánaða þjálfunar þar sem 22 sérfræðingar Orku- og vatnsveitunnar sækja bóklega þjálfun í borholuverkfræði, jarðfræði, efnafræði og umhverfisvöktun. Í kjölfarið hefst verkleg þjálfun á borsvæðinu þar sem 14 starfsmenn verða þjálfaðir af sérfræðingur ÍSOR. Tilraunaboranir eru að hefjast í byrjun júlí við fyrstu háhitaholuna í Rúanda á Karisimbi svæðinu, en alls er áætlað að bora þrjár tilraunaholur þarna. Markmiðið er, eins og fram kemur á vef ÞSSÍ að starfsmenn Orku- og vatnsveitunnar geti framkvæmt nauðsynlega þætti sem tengjast rannsóknum og vöktun í tengslum við frekari jarðhitaboranir í landinu.