[x]
30. september 2013

Jarðhitasamstarf í Rúanda

Mikill áhugi er hjá alþjóðasamfélaginu að aðstoða Austur-Afríku við uppbyggingu á orkuvinnslu úr jarðhita. Hafa stofnanir á borð við Alþjóðabankann (WB), Franska þróunarsjóðinn (AFD), KFW í Þýskalandi og Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) ásamt norrænum þróunarsjóðum ákveðið að setja umtalsverðar upphæðir í jarðhitauppbyggingu á þessu svæði. Á dögunum skrifaði íslenska jarðhitafyrirtækið Reykjavík Geothermal (RG) undir samning við ESB um jarðhitarannsóknir á landamærum Búrúndí, Kongó og Rúanda.

ÍSOR hefur verið aðalráðgjafi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem hefur í samstarfi við sendiskrifstofu ESB í Rúanda og sameiginlega orkustofnun þjóðanna þriggja (EGL – Great Lakes Energy Authority) séð um undirbúning jarðhitarannsókna á Bugurama/Ruzizi svæðinu í Rúanda. Í fyrrnefndum samningi munu sérfræðingar ÍSOR, fyrir hönd ÞSSÍ, sinna tæknilegri aðstoð og stuðningi við hlutaðeigendur. Marc Buchman, sviðsstjóri hjá sendinefnd ESB í Rúanda, kveðst vera ánægður með að hafa náð þessum samningi við RG og þakkar frábært samstarf við ÞSSÍ og ÍSOR.
Nánar má lesa um jarðhitasamstarfið í vefriti ÞSSÍ og þar er einnig viðtal við Marc Buchman.

Sérfræðingar ÍSOR hafa í mörg ár unnið að verkefnum tengdum uppbyggingu jarðhitavinnslu í Austur-Afríku. Aðalþunginn hefur verið á sviði þjálfunar og kennslu á flestum sviðum jarðhitarannsókna. Einnig hefur verið unnin rannsóknar- og mælingavinna í löndunum. Sjá nánar um verkefni ÍSOR