[x]
15. apríl 2008

Jarðhitarannsóknir í Djibouti lofa góðu

Jarðhitarannsóknir í Djibouti í Austur-Afríku benda til að góðar vonir séu til þess að finna megi nýtanlegan jarðhita til raforkuframleiðslu. Í febrúar á síðasta ár fékk Reykjavík Energy Invest (REI) einkaleyfi til jarðhitarannsókna í Asal-gliðnunarbeltinu í Djibouti, með það að markmiði að reisa og reka 50-100 MW jarðgufuvirkjun í samvinnu við heimamenn. Jarðhiti er eina innlenda orkulindin í Djibouti, sem nýta má til raforkuframleiðslu, en nú er öll raforka framleidd úr innfluttri olíu. ÍSOR hefur frá því á seinnihluta síðasta árs unnið að umfangsmiklum yfirborðsrannsóknum; jarðfræðikortlagningu og viðnámsmælingum á Asal-svæðinu fyrir REI. Niðurstöður liggja nú fyrir og voru kynntar í Djibouti um leið og skrifað var undir samninga REI og stjórnvalda í Djibouti um áframhald verkefnisins. Starfsmenn ÍSOR eru ekki nýgræðingar í vinnu á þessum slóðum því að á árunum 1988 og 1989 var unnið að rannsóknum á Asal-svæðinu. Þær rannsóknir leiddu hinsvegar ekki til virkjunar vegna mikils magns uppleystra efna í jarðhitavökvanum. Niðurstöður rannsóknanna nú benda hins vegar til þess að góðar vonir séu til að finna megi og nýta jarðhitavökva með mun minna af uppleystum efnum með því að bora á öðrum stöðum en áður. Maryam Khodayar, jarðfræðingur við kortlagningu. Ljósm. Hjálmar Eysteinsson. Við jarðfræðikortlagningu. Ljósm. Gestur Gíslason. Hér er verið að ganga frá viðnámsmælitækjum. Ljósm. Hjálmar Eysteinsson.