[x]
4. febrúar 2014

Jarðhitarannsóknir á Filippseyjum

Hluti af rannsóknarhópnum á Filippseyjum.ÍSOR hefur gert samning við fyrirtækið Emerging Power um grunnrannsóknir á jarðhitasvæðinu Montelago á eyjunni Mindoro á Filippseyjum.

Rannsóknarvinnan er þegar hafin og verða sérfræðingar ÍSOR allan febrúarmánuð við að kortleggja jarðhita í efstu kílómetrum jarðskorpunnar. Áætlað er að viðnámsmælingar verði um 50-60 í það heila og njóta starfsmenn ÍSOR aðstoðar frá fjölmennum hópi heimamanna. Aðstæður á svæðinu eru frekar erfiðar, mikið brattlendi og skógar.

Jarðhitasvæðið sem um ræðir heitir Montelago og er líklega um 3-5 ferkílómetrar að stærð. Það er um 170 km suður af Manila, höfuðborg Filippseyja. Þarna er ætlunin að reisa um 44 MW virkjun til rafmagnsframleiðslu fyrir heimamenn.  Á svæðinu er nokkur yfirborðsjarðhiti, allt að 96°C heitt vatn en engin gufuaugu. Yngsta gosvirknin er 800 þúsund ára gömul. Búið er að bora átta hitastigulsholur. ÍSOR hefur þegar gert frum-rúmmálsmat af svæðinu. Nýlega voru gerðar segul- og þyngdarmælingar á svæðinu og efnasýnum safnað sem nú er verið að greina. Áætlað er að borun hefjist í sumar. ÍSOR mun sjá um jarðfræðilega ráðgjöf og mælingar við borunina.