[x]
1. mars 2011

Jarðhitaráðstefna framhaldsnema (PhD-Day)

Þann 2. mars næstkomandi verður haldinn í Reykjavík evrópski framhaldsnemadagurinn í jarðhitafræðum.

Þetta er í annað sinn sem þessi ráðstefna fer fram, en hún var haldin í fyrsta sinn í Potsdam í Þýskalandi í fyrra og er skipulögð af framhaldsnemum eingöngu. Nú er von á fólki frá hinum ýmsu löndum Evrópu, allt í allt um 70 manns, til að fræðast um jarðhitarannsóknir og efla tengslin á milli hinna ólíku sviða jarðhitarannsókna. Meðal þeirra sem hafa boðað komu sína eru Fausto Batini, framkvæmdastjóri EERA og Jan-Diedrik van Wees frá TNO í Hollandi, auk íslenskra jarðhitasérfræðinga á borð við Einar Gunnlaugsson, verkefnastjóra jarðhitarannsókna hjá OR, Ólaf G. Flóvenz, forstjóra ÍSOR, Kristínu Völu Ragnarsdóttur, forseta verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ og Guðrúnu Arnbjörgu Sævarsdóttur, lektors og sviðsstjóra véla- og rafmagnssviðs HR.

Á þriðjudagskvöld verður ráðstefnan sett með svokölluðum "Icebreaker" sem haldinn verður í Orkugarði. Þar mun Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, setja ráðstefnuna og Stefán Pálsson, sagnfræðingur, mun fræða viðstadda um sögu jarðhitanýtingar á Íslandi. Þá mun Ingvar Birgir Friðleifsson, forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og hin ýmsu fyrirtæki í jarðhitageiranum kynna starfsemi sína.

Á miðvikdag, 2. mars, verður svo ráðstefnan sjálf haldin í Háskólanum í Reykjavík. Þá munu nemendur kynna rannsóknir sínar auk þess sem Guðmundur Ómar Friðleifsson, jarðfræðingur, segir frá IDDP djúpborunarverkefninu og Kristín Vala Ragnarsdóttir talar um sjálfbærni jarðhitasvæða.

Á fimmtudag og fram á föstudag munu þátttakendur svo halda út úr bænum að rótum Eyjafjallajökuls, heimsækja Gullfoss og Geysi og kynna sér hina ýmsu þætti jarðhitans, allt frá Hellisheiðarvirkjun til tómataræktunar í Reykholti.