[x]
26. apríl 2005

Jarðhitanotkun á Íslandi sú mesta í heimi.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra ávarpaði alþjóðlegu jarðhitaráðstefnuna í gær, sem að þessu sinni er haldin í Tyrklandi. Að því loknu opnaði ráðherrann yfirgripsmikla jarðhitasýningu sem haldin er í tengslum við ráðstefnuna. Valgerður minntist í upphafi ávarpsins á að Íslendingar hefðu verið stofnfélagar í Alþjóða jarðhitasambandinu og ávallt verið virkir í starfi þess, enda væri jarðhitanotkun á Íslandi sú mesta í heimi, eða 54% af orkunotkun þjóðarinnar. Nýting jarðhitans hefði á síðustu árum orðið samofin daglegu lífi og velferð þjóðarinnar auk þess að hafa sparað henni árlega marga milljarða króna miðað við sambærilega olíunotkun á árum áður.Margir frá jarðhitaskóla SÞValgerður fjallaði m.a. í ávarpi sínu um jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld hefðu rekið í 26 ár og væru einkar stolt af því starfi sem þar færi fram. Frá upphafi hafa 318 nemendur stundað nám við skólann og af þeim eru 80 viðstaddir ráðstefnuna í Tyrklandi. Eiga þeir hlut í 144 erindum af 706 sem eru flutt á ráðstefnunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu. Valgerður greindi m.a. frá því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að styðja í auknum mæli við jarðhitanýtingu í þróunarríkjunum. Nú þegar hefðu verið undirbúin námskeið í Asíu, Afríku og Mið-Ameríku á vegum jarðhitaskóla SÞ á árunum 2006-2008, þar sem áhersla væri lögð á rannsóknir og nýtingu jarðhita og rekstur jarðhitaorkuvera.Um 1.300 manns sitja ráðstefnuna í Tyrklandi og eins og fram hefur komið þar á meðal 17 starfsmenn ÍSOR.  Auk Valgerðar fluttu þar ávörp ráðherrar orku- og umhverfismála í Tyrklandi.