[x]
3. desemeber 2014

Jarðhitanámskeið í Mexíkó

Hamingjusamur hópur nemenda og kennara að námskeiði loknu.Sérfræðingar ÍSOR sáu um jarðhitanámskeið fyrir ungt vísindafólk í Mexíkó nú í lok nóvember. Nemendur komu víðs vegar að. Flestir þeirra langt komnir með bachelor-nám og sumir komnir í framhaldsnám. Aðrir nemar höfðu nýlega hafið störf í orkugeiranum. Þar að auki sótti hópur starfsfólks jarðhitavirkjunarinnar í Los Azufres námskeiðið.

Yfirborðsrannsóknir voru efst á baugi á námskeiðinu en farið var yfir jarðfræði, jarðefnafræði og jarðeðlisfræðirannsóknir. Einnig voru umhverfismál jarðhitans rædd, sem og hvernig standa ætti að áhættu- og umhverfismati og gerð hugmyndalíkana. 

Námskeiðið var hugsað sem fyrsta skrefið í menntun nýrrar kynslóðar jarðhitasérfræðinga í Mexíkó. Miklar breytingar eru í vændum í orkumálum í Mexíkó en til stendur að afnema einkarétt ríkisins til framleiðslu, dreifingar og sölu raforku. Mexíkó er talið vera þrettánda fjölmennasta land í heimi með um 114 milljónir íbúa. Raforkuframleiðsla er 958 MWe sem er sú fjórða mesta í heimi. Aukning er í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa eins og sólarorku, vindorku, lífmassa og vatnsafls en jarðhitinn er þó stærsti endurnýjanlegi orkugjafinn.

Námskeiðið var haldið dagana 24.–29. nóvember í húsakynnum jarðhitavirkjunarinnar í Los Azufres. Það var skipulagt af Jarðhitaskólanum í samvinnu við stjórnvöldum í Mexíkó, CEMIE-Geo (Centro Mexicano de Innovación en Energía Geotérmica) og CFE (Comisión Federal de Electricidad). Sérfræðingar ÍSOR sáu um kennslu og þjálfun en það voru þeir Gylfi Páll Hersir, Halldór Ármannsson og Bjarni Gautason. Einnig greindu þarlendir sérfræðingar frá stöðu jarðhitamála í landinu og jarðhitarannsóknum á Los Azufres svæðinu.