[x]
14. maí 2014

Jarðhitanámskeið fyrir starfsfólk jarðfræði- og námastofnunar Chile

Verkleg kennsla í viðnámsmælingum á Reykjanesi. Ljósmynd Harpa Elín Haraldsdóttir.Þessa dagana stendur yfir þriggja vikna sérhæft námskeið í viðnámsmælingum hjá ÍSOR. Námskeiðið er haldið fyrir starfsfólk jarðfræði- og námastofnunar Chile, SERNAGEOMIN (Servicio Nacional de Geologia y Mineria).

Námskeiðið er þríþætt.

  1. Fræðilegur hluti, þar sem farið er yfir grundvallaratriðin í viðnámsmælingum, TEM- og MT-mælingum.
  2. Verklegur hluti, þar sem gerðar eru mælingar við háhitasvæðin í Svartsengi og á Reykjanesi.
  3. Túlkun gagna og úrvinnsla.

Námskeiðinu lýkur með formlegri útskrift þar sem þátttakendur kynna verkefnin sín.

Í Chile eru áform um að afla orku með endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og jarðhita. Kol og fljótandi jarðgas eru enn sem komið er aðalorkugjafarnir í landinu. Jarðfræði- og námustofnunin er að búa sig undir aukna nýtingu jarðhita og er námskeiðið hluti af þeim undirbúningi. Alls taka sex fræðimenn þátt í námskeiðinu, allir stafsmenn jarðfræði- og jarðeðlisfræðideildar stofnunarinnar.

GeoThermHydro, sameiginlegt fyrirtæki ÍSOR og VERKÍS í Chile, heldur námskeiðið, en ÍSOR sér um framkvæmd þess. Námskeiðið er kostað af þýska þróunarbankanum KfW.