[x]
2. júlí 2015

Jarðhitanámskeið á Azoreyjum

Nemendur á sérhæfðu jarðhitanámskeiði ásamt leiðbeinandanum Benedikti Steingrímssyni. Nýverið lauk tveggja vikna námskeiði á Azoreyjum í borholumælingum, prófunum og mati á afköstum borholna, Short Course III on Borehole Geophysics in Geothermal Development. Námskeiðið var haldið á vegum Jarðhitaskólans en starfsfólk ÍSOR sá um þjálfun og kennslu.

Á námskeiðinu var boðið upp á fyrirlestra, vettvangsferðir og verklega þjálfun við mælingar í borholum. Ellefu starfsmenn frá fyrirtækinu EDA RENOVÁVEIS sóttu námskeiðið, þar af tveir sem voru í fjarfundarsambandi, og gekk allt vel. 
Þetta var þriðja námskeiðið sem Jarðhitaskólinn heldur á Azoreyjum og til stendur að vera með þrjú til viðbótar á þessu og næsta ári. Námskeiðin eru fjármögnuð af sjóðum Evrópska efnahagssambandsins (EEA).

Námskeið sem þegar hafa verið haldin: Workshop on Geothermal for Decision-Makers & Short Course I on Geological Exploration of Geothermal Fields (8.-20. september 2014). Short Course II on Geothermal Utilization and Geothermal Power Plants (17.-29. nóvember 2014). Á þessu ári og því næsta er áætlað að halda námskeið sem tengist efnafræði og ráðgjöf við boranir.