[x]
25. apríl 2016

Jarðhitanámskeið á Azor-eyjum

Nemendur á námskeiði á Azor-eyjum. Ljósmynd Gylfi Páll Hersir. Í síðustu viku lauk tveggja vikna námskeiði í jarðeðlisfræðilegum aðferðum við jarðhitaleit. Námskeiðið var haldið á Azor-eyjum fyrir starfsfólk EDA (Electricity Company of the Azores) og Háskólann á Azor. Leiðbeinendur voru jarðeðlisfræðingarnir Gylfi Páll Hersir og Hanna Blanck.
Þetta var sjötta og jafnframt síðasta námskeið Jarðhitaskólans á Azor-eyjum í röð námskeiða sem eru fjármögnuð af EEA Grants scheme. Fyrri námskeiðin voru:

  • Workshop on Geothermal for Decision-Makers & Short Course I on Geological Exploration of Geothermal Fields. Haldið 8.–20. september 2014.
  • Short Course II on Geothermal Utilization and Geothermal Power Plants. Haldið 17.–29. nóvember 2014.
  • Short Course III on Borehole Geophysics in Geothermal Development.Haldið 15.–27. júní 2015.
  • Short Course IV on Chemistry of Thermal Fluids. Haldið 7.–19. september 2015.
  • Short Course V on Well Design and Geothermal Drilling Technology. Haldið 18.–30. janúar 2016.

ÍSOR hefur í gegnum tíðina, auk þjálfunar og kennslu, komið að jarðhitaverkefnum á Azor-eyjum. ÍSOR hefur m.a. veitt ráðgjöf varðandi hugmyndalíkan, staðsetningu borholna á svæðinu og eins prófun holna. EDA er þátttakandi í einu rannsóknarverkefni ásamt ÍSOR, IMAGE-verkefninu. Einn liður í því verkefni er að gera hugmyndalíkan af svæðinu Pico Alto á Terceira-eyju. Í lok þessa árs eða fyrripart þess næsta er stefnt að rekstri 3,5 MW virkjunar þar.

Nemendur á námskeiði á Azor-eyjum. Ljósmynd Gylfi Páll Hersir.Gylfi Páll Hersir tók saman fróðleik um Azor-eyjar.
Kennslan fór fram í höfuðborginni Ponta Delgada á eyjunni São Miguel sem er stærst þeirra níu eyja sem mynda Azor-eyjar. Azor-eyjar eru í tveggja og hálfrar klukkustundar flugi frá Portúgal, beint í vestur. Íbúar eru um 250.000 talsins, þar af býr rúmur helmingur á São Miguel. Landið var numið þegar Portúgalir héldu til Vesturheims í leit að landkönnuðarævintýrum samfara rányrkju á frumbyggjum Ameríku og nýlendukúgun – rétt fyrir miðja fimmtándu öld. Eyjarnar eru grösugar og fallegar, loftslag rakt en þokkalega hlýtt. Aðalatvinnuvegurinn er landbúnaður og ferðaþjónusta. Landið er rétt rúmlega 2 þúsund km2 að stærð. Stærsta fjallið heitir Pico og er 2.351 m að hæð.

Sao Miguela er stærsta og virkasta eldjallaeyjan. Síðustu 5.000 árin hefur gosið þar nokkrum sinnum á þremur virkum megineldstöðvum, Sete Cidares, Fogo og Furnas. Einnig hefur gosið á basaltgossprungum á Pico og Congro. Talið er að gosið hafi á Furnas þegar fyrstu landnemarnir komu til Azor-eyja einhvern tíma á árunum 1439 til 1443. Fátt er þó vitað nákvæmlega um fyrstu landnemana. Síðasta eldgosið ofansjávar var í goskerfi Pico árið 1652.

Talið er að um 250 manns hafa látist af völdum eldgosa á eyjunum, þar af um 195 árið 1630 samfara gosinu í Furnas. Einhverjar þúsundir hafa fallið af völdum jarðskjálfta og aurskriðna sem fylgt hafa í kjölfarið. Árið 1522 er talið að 5.000 manns hafi látist. Árið 1757 varð skjálfti, 7,4 að stærð, og dóu þá rúmlega 1.000.

Á Pico Vermelhu svæðinu var fyrst virkjað árið 1980, 3 MW (back pressure). Virkjunin var síðar lögð niður og 2006 var byggð ný virkjun, 10 MW (binary). Á Ribeira Grande voru sett upp 2 x 2.5 MW árið 1994 og árið 1998 2 x 4 MW; samtals 13 MW (binary). Báðar þessar virkjanir eru á São Miguel og sjá þær fyrir 44% raforkunotkunarinnar á eyjunni og 23% fyrir Azor-eyjar í heild. Í lok þessa árs eða fyrripart þess næsta er stefnt að rekstri 3,5 MW virkjunar á Pico Alto svæðinu á Terceira-eyju.

Nemendur á námskeiði á Azor-eyjum. Ljósmynd Gylfi Páll Hersir.Það er fleira líkt með Íslandi og Azor-eyjum en landrekið. Þarna hafa Bandaríkin starfrækt herstöð frá 1953, Lajes herstöðina á eyjunni Terceira. Nú stendur reyndar til að loka henni, í óþökk margra íbúa. Lajes stöðinni var upphaflega komið á laggirnar af Portúgölum á millistríðsárunum. Þegar stríðið skall á komu Bretar og Bandaríkin með sitt herlið, fóru svo en komu aftur 1953 skömmu eftir stofnun NATO 1949. Lajes stöðin var notuð til að hlúa að hermönnum sem börðust gegn frelsisbaráttu Afríkubúa í nýlendustríðum Portúgala, 1961-1975 (Angóla, Mozambique og Grænhöfðaeyjum). Azor-eyjar voru m.a. notaðar til millilendinga í flutningi hergagna frá Bandaríkjunum til Ísrael í Yom Kippur stríðinu 1973 og síðar í árásum Bandaríkjanna á hendur Írak og Afganistan.