[x]
25. ágúst 2005

JARÐHITALEIT Á GRÆNLANDI

ÍSOR hefur tekið að sér jarðhitaathuganir á Diskóeyju við Grænland. Aðalbyggðin þar er í Góðhöfn eða Qeqertarsuak sem er 1100 manna bær og vinabær Húsavíkur. Sveitastjórnarmenn þaðan hafa séð hvernig Húsvíkingar nýta sér jarðhita. Á Diskó er lághiti í jörðu en hann er lítt rannsakaður og ekkert nýttur en nú hugsa menn sér til hreyfings.Góðhöfn er um 600 km norðar en Nuuk og á 69. breiddargráðu. Bærinn er hitaður og lýstur með olíu. Aðalatvinnuveginn er sjávarútvegur, veiðar og ferðamannaiðnaður í smáum stíl. Danir hafa allt frá árinu 1906 rekið þar rannsóknarstöðina Arktisk Station og stundað alhliða náttúrurannsóknir.  Þar er einnig rannsóknarstöð í jarðeðlisfræði sem einkum fæst við segulsviðsrannsóknir. Annað þorp er á eynni, Diskofjord (Kangerluk), en það er mun minna en Godhavn.Diskóeyja er að flatarmáli um 20.000 km2 eða svipuð að stærð og Vestfirðir. Hún tilheyrirbasaltsvæði Vestur Grænlands þannig að jarðfræðinni svipar um margt til Íslands. Hraunlagastaflinn er þó mun eldri, frá upphafi tertíer, eða um 60 milljón ára og hvílir á miklu eldri berggrunni. Hiti í laugum er lágur, 8-18°C og rennsli ekki mikið þótt mælingar á því séu fátæklegar. Orsakir hitans og tengsl hans við jarðlög og sprungur eru óþekkt þótt líklegt sé að hann tengist hinni tertíeru eldvirkni. Efnagreiningar með tilliti til djúphita og jarðhitanýtingar hafa ekki verið gerðar. Rannsóknirnar nú eru yfirlitsathuganir og sýnataka. Gefi þær tilefni til verður næsta skref tekið að ári með borunum á grunnum hitastigulsholum. Ef þær skila jákvæðum árangri yrðu síðan gerðar jarðeðlisfræðilegar mælingar og léttar boranir til staðsetningar á vinnsluholu. Hér er því horft til framtíðar.Ríkisstjórn Íslands hefur með milligöngu iðnaðarráðuneytis lagt 2 milljónir kr. í rannsóknirnar nú sem einskonar þróunarstyrk til Grænlendinga og Húsavík hefur lagt fram 150.000 kr. til stuðnings sínum vinabæ.