[x]
21. febrúar 2007

Jarðhitaleit fyrir Súðavík

Síðsumars og haustið 2006 voru kannaðir möguleikar á að ná heitu vatni fyrir Súðavík. Verkið var unnið að frumkvæði hreppsnefndar Súðavíkur í samvinnu við Orkubú Vestfjarða og með stuðningi Orkusjóðs. Íslenskar orkurannsóknir sáu um yfirborðsrannsóknir og höfðu eftirlit með leitarborunum. Verkið fólst í jarðfræðikortlagninu og könnun á sprungum og misgengjum auk hitastigulsborana. Hitaþversnið af borsvæðinu við Svarfhól í Álftafirði vestur Enginn yfirborðsjarðhiti er á þessum slóðum og því beindist athyglin að því að tengja saman hitastigul í borholum og ungar sprungur. Fyrir fáum árum voru leiddar að því sterkar líkur að jarðhitakerfi sem fannst með borunum á Tungudal í Skutulsfirði væri tengt NV-SA-sprungu eða sprungukerfi. Það er svipuð stefna og stjórnar uppstreymi heits vatns í Súgandafirði og við vestanvert Ísafjarðardjúp. Hugsanleg hitasprunga í Svarthamarsfjalli ofan við Svarfhól í Álftafirði Sprunga sem talið er að stjórni uppstreymi heits vatn undir Tungudal í Skutulsfirði var rakin yfir í innsta hluta Álftafjarðar og er hún þar í landi Svarfhóls. Þar var fyrir ein gömul histastigulshola sem sýndi stigul upp á um 87°C/km sem er umtalsvert hærra en svæðisstigull á þessum slóðum sem er um 50°C/km. Boraðar voru átta hitastigulsholur og varð sú dýpsta 100 m. Þeim var raðar þvert á stefnu sprungunnar og reyndist hæsti stigull um 120°C/km sem er vísbending um að heit vatn sé á ferðinni í sprungunni. Því verður að telja að allgóðar líkur séu á að heitt vatn náist með frekari borunum fyrir Súðavík. Á meðfylgjandi mynd er sýnt hitaþversnið af borsvæðinu eins og það birtist í þeim holum sem boraðar voru. Þar kemur ljóslega fram að í efsta hluta hugsanlegrar sprungu er mikið af köldu vatni enda há fjöll í grenndinni sem halda uppi miklu kaldavatnsþrýsingi sem þrýstir vatni niður í jarðhitasprunguna. Þegar borað er niður úr kalda vatnlaginu kemur hár hitastigull í ljós. Næsta skref hlýtur að vera að bora dýpri könnunarholu, s.s. 300-400 m djúpa, til að staðfesta háan hitastigul við sprunguna. Ef hiti vex niður með líkum hætti og birtist í heitustu holunni sem var boruð 2006 eru góðar líkur á að heitt vatn náist sem duga myndi fyrir hitaveitu fyrir Súðavík.