[x]
3. maí 2006

Jarðhitaháskólinn settur

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu Þjóðanna var settur 2. maí s.l. Þetta árið verða 4 stúlkur og 15 piltar frá 11 löndum úr fjórum heimsálfum við nám í skólanum. Öll koma þau frá löndum sem flokkast sem þróunarlönd enda segir um markmið skólans á vefsíðu hans: ".. að aðstoða þróunarlönd, þar sem nýtanlegur jarðhiti finnst, við að byggja upp og efla hóp sérfræðinga í jarðhitafræðum, sem geta unnið á hinum ýmsu sérsviðum í rannsóknum á jarðhita og nýtingu hans."

Hópurinn verður við nám hér fram undir lok október og eru flestir í verkfræði þetta árið en einnig eru nokkuð stórir hópar í efnafræði og forðafræði. Eins og undanfarin ár koma starfsmenn ÍSOR talsvert mikið að kennslu við skólann.  Jarðhitaskólinn er til húsa á sömu hæð og ÍSOR að Grensásvegi 9 og setja nemarnir því nokkurn svip á gangana þessa dagana.

Starfsmenn ÍSOR bjóða nemana velkomna til starfa.