[x]
25. maí 2005

Jarðhitabók Guðmundar Pálmasonar fær góða ritdóma

Guðmundur Pálmason starfaði á jarðhitadeild Orkustofnunar í 40 ár og var forstöðumaður deildarinnar í 30 ár. Þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir, hóf hann ritun bókar um jarðhita og nýtingu hans. Guðmundi entist ekki aldur til að ljúka verkinu en hann lést á útmánuðum 2004. Ýmsir samstarfsmenn hans komu þá að frágangi bókarinnar og kom hún út fyrr á þessu ári. Bókin hefur hlotið mjög góða dóma og segir m.a. í umsögn Ágústar H Bjarnasonar:

" Það yrði æði langt mál, ef fara ætti yfir öll atriði bókarinnar hér, en látið skal duga að hvetja menn til þess að lesa hana. Efnið er sett fram á einstaklega ljósan máta og ekkert slegið af fræðilegum kröfum. Hin flóknustu atriði eru oft skýrð með einföldum dæmum á hnitmiðaðan hátt, svo að flestir ættu að geta skilið höfuðdrætti. Undirrituðum er til efs að völ sé á betra yfirlitsriti en þessu."

Jarðhitabók Guðmundar Pálmasonar er fræðslurit og jafnframt menningarsögulegt rit fyrir almenna lesendur. Sérstakur kafli er um brautryðjendur í rannsóknum jarðhita á Íslandi frá dögum Eggerts og Bjarna. Fjallað er um uppruna og eðli jarðhita, boranir og vinnslu, og margvísleg not af jarðhita í íslensku þjóðlífi. Einnig er rætt um áhrif nýtingar á umhverfi og nauðsyn á verndun jarðhitafyrirbæra. Þá er í bókinni annáll atburða sem tengjast rannsóknum og nýtingu jarðhita frá upphafi Íslandsbyggða og lagt mat á það hversu varanleg auðlind jarðhitinn sé. Höfundur deilir sýn á jarðhita með lesendum og skýrir efnið með fjölda dæma, teikninga og mynda. Þetta er grundvallarrit um eðli jarðhita og nýtingu hans sem auðlindar.Bókin er gefin út af Hinu Íslenska Bókmenntafélagi.