[x]
29. september 2009

Jarðfræðikortlagning var kynnt á Vísindavöku

Jarðfræðikort af Suðvesturlandi vakti athygli á Vísindavökunni sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur, föstudagskvöldið 25. september sl. en þar kynntu þau Guðrún Sigríður kortahönnuður og Sigurður Garðar jarðfræðingur jarðfræðikortlagningu og gerð jarðfræðikorta. Unnið er að gerð jarðfræðikortsins af Suðvesturlandi og stendur til að gefa það út í mælikvarðanum 1:100.000 fyrir ferðamenn og almenning. Fólki var gefið tækifæri til að koma með ábendingar um áhugaverða og markverða staði á Suðvesturlandi því til stendur að gefa síðar út upplýsingabækling með kortinu. Þökkum við kærlega þeim fjölmörgu sem lögðu okkur lið með góðum hugmyndum.

Einnig var gestum og gangandi gert kleift að spreyta sig á jarðfræðigetraun og féll það í góðan jarðveg.

Vísindavaka er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins. RANNÍS, Rannsóknamiðstöð Íslands, stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi.

Guðrún Sigríður, kortahönnuður ÍSOR, ræðir við gesti á Vísindavöku 2009.

Kortahönnuður ÍSOR, Guðrún Sigríður, ræðir við gesti á Vísindavöku 2009.

Jarðfræðikort og kortlagning var þema ÍSOR á Vísindavöku 2009.

Jarðfærðikortagerð var þema ÍSOR á Vísindavökunni. Sigurður Garðar jarðfræðingur útskýrði ferli jarðfræðikortagerðar fyrir gestum.

Krakkar að leysa jarðfræðigetraun ÍSOR á Vísindavöku 2009.

Það er alltaf spennandi að leysa þrautir og féll jarðfræðigetraunin í góðan jarðveg.