[x]
14. febrúar 2013

Jarðfræðikort af Norðurgosbelti gefið út

Íslenskar orkurannsóknir og Landsvirkjun hafa gefið út nýtt jarðfræðikort, í mælikvarðanum 1:100 000. Kortið nær yfir nyrðri hluta Norðurgosbeltis Íslands, eða svæðið frá Öxarfirði í norðri til Fremrináma í suðri.

  

Jarðfræðikort af Norðurgosbelti.Á kortinu eru allar helstu jarðmyndanir svæðisins sýndar. Elstu jarðlögin eru frá míósen á Tjörnesi, og eru um 10 milljóna ára gömul, og þau yngstu eru hraun frá Kröflueldum 1975-1984. Alls eru á kortinu 61 nútímahraun sem skipt er í 7 aldursflokka með hjálp gjóskulaga. Misgengi, gjár, hverir, lindir og fleiri jarðfræðileg fyrirbæri eru einnig sýnd. Kortið byggist á fjölmörgum jarðfræðikortum í stærri mælikvarða sem unnin hafa verið fyrir verkkaupa ÍSOR og forvera þess, Orkustofnun, en einnig á yfirlitskortum í minni mælikvarða. Gögnin hafa verið endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við.

Jarðfræðingarnir Kristján Sæmundsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Magnús Á. Sigurgeirsson, Sigurður G. Kristinsson og Skúli Víkingsson unnu að gerð kortsins. Kortahönnuður var Guðrún Sigríður Jónsdóttir.

Höfundar jarðfræðikortsins.

 

Við vinnslu á kortinu var búið til nýyrðið Gjávella. Þar sem greið leið er ofan í opnar gjár getur hraun runnið ofan í þær og langa leið eftir þeim neðanjarðar. Hraunið getur jafnvel komið upp um gjá annars staðar og kallast þá gjávella. Menn fóru fyrst að veita þessu fyrirbæri athygli í Kröflueldum þegar hraun rann ofan í sprungur og kom upp aftur í margra km fjarlægð. Á jarðfræðikortinu er vísað í 27 áhugaverða staði, sem merktir eru með númerum, og er þeim lýst í stuttu máli og myndum á bakhlið þess og hér á heimasíðu ÍSOR. Textinn er á íslensku og ensku.

 

Jarðfræðikort eru undirstaða umhverfismats, landnýtingar og skipulags í þéttbýli og strjálbýli. Þau eru nauðsynleg vegna nýtingar á auðlindum landsins og forsenda skynsamlegrar náttúruverndar. Einnig eru þau ómissandi þegar meta á hættu af völdum eldgosa, skriðufalla, flóða og jarðskjálfta. Vonast er til að jarðfræðikortið verði öllum þeim sem unna íslenskri náttúru til gagns og gamans, hvort sem um fræðimenn, skólafólk eða ferðamenn er að ræða.

Kristján Sæmundsson jarðfræðingur og einn af höfundum kortsins afhenti Svandísi Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra fyrsta eintakið af kortinu. Ljósm. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir.

Hægt verður að nálgast kortið í helstu bókaverslunum landsins og vefverslun Eymundsson

Nánari upplýsingar um kortið:
Kortið er unnið í landfræðilegu upplýsingakerfi ArcGIS.
Útgefendur: Íslenskar orkurannsóknir og Landsvirkjun.
Höfundarréttur: © Íslenskar orkurannsóknir. 1. útgáfa 2012.
Prentun: Oddi

Kortgrunnur er að stofni til eftir staðfræðikortum Landmælinga Íslands 1:50.000 (ÍS50V) með endurbótum eftir öðrum gögnum.
Dýptarlínur í sjó eru frá Landhelgisgæslu Íslands, Sjómælingasviði.

Dýptarlínur í stöðuvötnum eru frá Veðurstofu Íslands og

Náttúrurannsóknastöð við Mývatn.

 

  

Svandísi Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra var afhent fyrsta eintakið af kortinu. Í tilefni af því voru allir klæddir í jarðfræðikortssvuntur. Á myndinni má sjá fulltrúa frá ÍSOR, ráðuneytinu og Landsvirkjun. Ljósm. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir.