[x]
8. ágúst 2007

Jarðeðlisfræðimælingar í Krýsuvík

Leirhverinn Fúli pollur við Krýsuvík. Ljósmynd Kristján Sæmundsson.ÍSOR stundar nú um þessar mundir MT-viðnámsmælingar á Krýsuvíkursvæði. Mælingarnar eru liður í rannsókn á háhitakerfunum í Krýsuvík, Trölladyngju og Sandfelli.  Viðnámsmælingar, sem beitt hefur verið í frumrannsókn á háhitakerfum (TEM mælingar) sjá einungis niður á 1 km dýpi og gefa þannig vísbendingu um umfang jarðhitakerfisins. Vinnsludýpi háhitakerfanna er hins vegar á 2 – 3 km dýpi.

Þær mælingar sem nú er unnið að á Krýsuvíkursvæði sjá viðnám jarðar allt niður á tugi kílómetra dýpi. Þær nefnast MT (Magnetio Telluric) og þær lesa viðnám í jarðlögum út frá svörun jarðlaganna við breytingum í segulsviði jarðar. ÍSOR hefur ný fest kaup á tækjum til MT mælinga og hyggst kanna betur innviði háhitakerfanna og þar með að ákvarða betur uppstreymi.

MT mælingarnar eru túlkaðar með niðurstöðum TEM mælinganna og með þessum mælingum saman má fá glögga mynd af viðnáminu frá yfirborði niður á 15-20 km dýpi.