[x]
26. september 2013

ÍSOR á Vísindavöku 2013

ÍSOR tekur þátt í Vísindavöku Rannís sem fram fer í Háskólabíói föstudaginn 27. september kl. 17-22. Á vökunni ætlum við að velta fyrir okkur innri öflum jarðarinnar og hvað veldur jarðskjálftum. Við kynnum jarðskjálftamælingar sem eru eitt af fjölmörgum verkefnum ÍSOR en undanfarið hefur ÍSOR komið upp þéttu neti jarðskjálftamæla í tengslum við jarðhitavinnslu á Reykjanesi og í Kröflu. Gestir vökunnar geta meðal annars kannað styrk sinn með aðstoð jarðskjálftamælis.

Vísindavaka er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu síðasta föstudag í september til heiðurs evrópskum vísindamönnum. Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi.

Jarðeðlisfræðingarnir Sigríður Kristjánsdóttir og Egill Árni Guðnason, ásamt eðlisfræðingnum Gunnari Þorgilssyni verða á kynningarbás ÍSOR og hlakka til að taka á móti ykkur;-)