[x]
25. september 2009

ÍSOR á Vísindavöku

ÍSOR verður með sýningarbás á Vísindavöku föstudagskvöldið 25. september, kl. 17-22 í Listasafni Reykjavíkur. Þar gefst fólki kostur á að kynnast jarðfræðikortlagningu og gerð jarðfræðikorta, en ÍSOR hefur sérhæft sig í gerð slíkra korta í fjölmörg ár. Jarðfræðikort geta verið af ýmsum toga, eins og berggrunnskort, jarðgrunnskort, vatnafarskort, jarðhitakort, mannvirkjakort og auðlindakort. Einnig verður kynnt jarðfræðikort af Suðvesturlandi, sem stendur til að gefa út í mælikvarðanum 1:100.000 fyrir ferðamenn og almenning. Auk kortsins verður gefinn út upplýsingarbæklingur um markverða staði á Suðvesturlandi.

Vísindavaka er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins. RANNÍS, Rannsóknamiðstöð Íslands, stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi.