[x]
14. júní 2006

ÍSOR tekur þátt í Global Roundtable on Climate Change (GROCC)

Global Roundtable on Climate Change er hópur u.þ.b. 150 fremstu framkvæmda- og rannsóknaraðila heims á sviði loftslagsvísinda, og þingar á Íslandi um þessar mundir. ÍSOR hefur verið boðin aðild að GROCC og hefur Ólafur G. Flóvenz sótt þingið fyrir hönd ÍSOR. Meðal þeirra verkefna sem hópurinn hefur átt frumkvæði að er binding koldíoxíðs í jörð. Í janúar var haldinn alþjóðlegur vinnufundur um það efni með þátttöku vísindamanna frá ÍSOR. Orkuveita Reykjavíkur hefur nú boðið fram búnað og efni til tilraunar þar sem gasi frá Hellisheiðarvirkjun verður dælt í borholur og binding CO2 í berg könnuð. Vísindamenn ÍSOR hafa unnið grunnvinnu sem nýtast mun í þessari tilraun, annars vegar ákvörðun náttúrulegrar CO2 losunar til andrúmslofts en hins vegar ákvörðun þess magns CO2 sem bundist hefur í bergi í jarðhitakerfum. Í ráði er að gera sams konar mælingar á tilraunasvæðinu auk þess sem ÍSOR mun eiga þátt í ferlunarprófun. Á myndinni sést starfsmaður ÍSOR við gasmælingar í jarðvegi.