[x]
1. október 2008

ÍSOR tekur í notkun nýjan mælibúnað og bíl til eftirlitsmælinga í háhitaholum

Með þessum nýja mælibúnaði rekur ÍSOR nú þrjá sérútbúna bíla til hita- og þrýstimælinga í háhitaholum. Helstu nýjungar eru þær að sérstakur mæligámur var útbúinn með glussaspili og tveimur tromlum fyrir mælivír. Mælitækin sem eru einkum notuð í eftirlitsmælingunum eru sambyggðir hita- og þrýstimælar. Þetta eru hitavarðir rafeindamælar sem þola að vera í allt að 400°C hita í tvo klukkutíma. Mæliniðurstöður eru geymdar í minni í mælinum sem síðan eru sóttar með sérstöku tölvuforriti eftir að mælingu lýkur. Mælarnir eru hengdir í grannan vír úr ryðfríu stáli og síðan slakað niður í borholurnar. Misjafnt er eftir jarðhitasvæðum hversu oft þarf að endurnýja vírinn. Í sumum tilfellum verður að skipta um vír eftir hverja mælingu. Mælingabíllinn er af gerðinni SCANIA G380. Hann var keyptur og útbúinn hér á landi ásamt krana til að lyfta mæligámnum á og af bílnum. Hægt er að tengja gáminn við glussakerfi bílsins hvort sem hann er á bílnum eða á jörðinni. Í eftirlitsmælingum á háhitasvæðum hefur hingað til verið nauðsynlegt að fá aðstoð kranabíls til að lyfta mælirörum og mönnum til að koma mælibúnaði fyrir á holutoppi. Kraninn á nýja bílnum getur lyft manni og búnaði í sérstakri öryggiskörfu í rúmlega 20 m fjarlægð frá bílnum. Sérstök réttindi þarf til að nota kranann. Kanadíska fyrirtækið DynaWinch sá um hönnun og smíði á mæligámnum samkvæmt forskrift ÍSOR.