[x]
18. janúar 2006

ÍSOR kaupir nýjan borholumælingabíl

Mikið hefur verið að gera í borholumælingum síðasta ár og verður fyrirsjáanlega á komandi árum í tengslum við boranir vegna nýrra háhitavirkjana og rekstur þeirra. Til þess að anna þessum verkefnum hefur ÍSOR keypt nýjan borholumælingabíl. Keypt var Scania bílgrind sem síðan var send til DynaWinch í Kanada þar sem byggt var yfir bílinn og settur í hann spilbúnaður og grunninnréttingar fyrir rafeindatæki.   Bíllinn er notaður til að slaka mælitækjum niður í borholur og er búinn spili sem rúmar 4,5 km af vír. Það væri því hægt að leggja út spilvír frá höfuðstöðvum ÍSOR við Grensásveg niður Laugaveg og eitthvað vel vestur fyrir Lækjartorg. Spilvírinn er með leiðurum sem flytja merki frá mælitækjum upp í bílinn.  Með mælitækjum ÍSOR er hægt að mæla hita, þrýsting, vídd holu, hörðnun steinsteypufóðringa og ýmislegt fleira.   Nú er unnið að lokafrágangi bílsins og er reiknað með að hann verði tilbúinn til vinnu um miðjan febrúar. Áætlað verð bílsins með öllum búnaði er á bilinu 25 - 30 milljónir króna. ÍSOR á fyrir eldri bíl af sömu stærð og tvo minni mælingabíla.