[x]
19. júlí 2018

ÍSOR í ráðgjafarhlutverki í Tyrklandi

ÍSOR í ráðgjafarhlutverki hjá nýstofnuðum sjóði sem ætlað er að hvetja til rannsóknarborana í Tyrklandi, með því að taka þátt í borkostnaði þeirra holna sem ekki takast. 

Alþjóðabankinn, í gegnum Clean Tecnology Fund (CTF), hefur veitt skilyrtan styrk til Tyrklands, sem nota á til að taka þátt í kostnaði vegna misheppnaðra rannsóknaborana í jarðhitaverkefnum. Markmiðið er að hvetja fyrst og fremst fyrirtæki úr einkageiranum til að fjárfesta í jarðhita, en boranir eru einn áhættumesti liðurinn í hverju jarðvarmaverkefni. Með þessu er verið að draga úr fjárhagslegri áhættu orkufyrirtækja í jarðhitaiðnaðinum. Stofnaður hefur verið einskonar tryggingarsjóður í þessum tilgangi.

Verkefnið er á vegum Tyrkneskra yfirvalda, hefur Tyrkneski þróunarbankinn umsjón með sjóðnum, sem er fjármagnaður með 38 milljónum bandaríkjadala frá Clean Tecnology Fund.

ÍSOR er einn af aðalráðgjöfum í sjóðsins (Risk Sharing Mechanism), ásamt verkfræðifyrirtækinu, AF-Consult, Switzerland Limited, verkfræðistofunni Verkís og tyrkneska fyrirtækinu, AF-Mercados. Undirráðgjafi er lögmannastofan BBA lögmenn. 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í sjóðinn, en það var gert samhliða fyrsta vinnufundi í Izmir, 5. júlí síðastliðinn, en verkefnið hófst í apríl 2018.