[x]
22. febrúar 2006

ÍSOR í Mið-Ameríku á Þorranum

Í lok janúar fóru tveir sérfræðingar ÍSOR til Níkaragúa á vegum ÞSSÍ til að skipuleggja og undirbúa námskeið um jarðhitamál og taka viðtöl við hugsanlega nemendur við Jarðhitaskólann. ÞSSÍ mun kosta einn nemanda í sumar og var hann valinn í ferðinni. Jarðhitaráðstefnunni er ætlað að marka upphaf þróunarsamvinnuverkefnis milli Íslands og Níkaragúa um uppbyggingu mannauðs í jarðhitageiranum þar í landi og verður hún haldin í júní í sumar.  Þátttakendur munu koma frá orkustofnunum, orkufyrirtækjum og háskólum Níkaragúa auk fyrirlesara frá Íslandi og er undirbúningur kominn vel á veg. Frá Níkaragúa var haldið á vegum Jarðhitaskólans til Miravalles í Kosta Ríka þar sem ICE, landsvirkjun Kosta Ríka, rekur 150 MW jarðgufuvirkjun. Í Miravalles voru miklir fagnaðarfundir en þar vinna um tíu fyrrum nemendur okkar og aðrir góðir vinir. Tilgangur ferðarinnar var einmitt að ræða við fjóra sérfræðinga sem tilnefndir voru til náms í Jarðhitaskólanum. Tveir þeirra munu koma til náms í vor. Þá var ferðin einnig notuð til að kanna útstreymi koltvíildis úr jarðvegi við tvö eldfjöll sitt hvoru megin við Miravalles eldfjallið. Þetta eru eldfjöllin Rincon de la Veija og Tenorío. Heldur þótti vinnuaðstaðan í regnskóginum ólíkt þess sem gerist á Íslandi, en gasið fannst engu að síður.