[x]
17. febrúar 2020

ÍSOR hlýtur gæðavottun

Árni Ragnarsson gæðastjóri og Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR. Ljósmynd Brynja Jónsdóttir. ÍSOR hlaut nýlega vottun á gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 9001. ÍSOR er fyrirtæki í eigu ríkisins sem samkvæmt lögum selur sérhæfða þekkingu á sviði náttúrufars, orkumála og auðlindamála ásamt ráðgjöf og þjónustu byggða á henni. Jafnframt er ÍSOR ein helsta rannsóknarstofnun heims á sviði jarðhita. ÍSOR er, samkvæmt lögum, ætlað að starfa á samkeppnismarkaði, án opinberra fjárveitinga en arði af starfseminni skal varið til að auka rannsóknarfærnina.

Vottunin nær yfir þjónustu á sviði jarðhita; rannsóknir, þróun og ráðgjöf. Um er að ræða m.a. þjónustu við boranir vegna jarðhita og neysluvatns og eftirlit og vöktun auk beinna grunnrannsókna á flestum sviðum jarðhitanýtingar og annarra náttúruauðlinda. Gæðastjórnunarkerfinu er lýst í virkri og útgáfustýrðri, rafrænni handbók sem er aðgengileg öllum starfsmönnum.

Í yfir áratug hefur ÍSOR unnið samkvæmt gæðastjórnunarkerfi sem byggist á ISO 9001 staðlinum þannig að þróun kerfisins og innleiðing nýrra þátta starfseminnar hefur staðið yfir í langan tíma. Gæðastjórnunarkerfið hefur því þegar nýst ÍSOR vel í fjölda ára en nú hefur öll starfsemi fyrirtækisins verið innleidd í kerfið samkvæmt nýjustu útgáfu af staðlinum. Þetta tryggir reglulegt eftirlit með starfseminni og stöðugar umbætur ásamt eftirfylgni þeirra. Það er stefna ÍSOR að tryggja viðskiptavinum sínum skilvirka þjónustu og áreiðanlega ráðgjöf sem byggð er á bestu fáanlegri tækni og þekkingu á hverjum tíma og tekur tillit til þarfar fyrir vernd og endurbætur í umhverfismálum.