[x]
6. júlí 2010

ÍSOR gefur út nýtt jarðfræðikort af Suðvesturlandi í mælikvarðanum 1:100 000

ÍSOR hefur um áratuga skeið unnið að jarðfræðikortlagningu víða um land, þar á meðal á Suðvesturlandi. Gerð hafa verið jarðfræðikort í mælikvörðum 1:20.000–1:50.000 fyrir ýmsa aðila, t.d. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku. Kortin eru allt frá því að vera svarthvít, handteiknuð kort í gömlum skýrslum yfir í að vera stafrænt unnin í landupplýsingakerfinu ArcGIS og prentuð í lit. Nú hefur ÍSOR steypt þessum kortum saman í eina heild í mælikvarða 1:100.000 ásamt því að fylla í eyður. Þetta er hentugur mælikvarði fyrir þá sem vilja fá góða yfirlitsmynd af jarðfræði svæðisins. Með þessu móti nýtist þessi mikla vinna og magn af margvíslegum jarðfræðiupplýsingum almenningi, fræðimönnum, skólafólki og ferðamönnum, og verður öllum þeim sem unna íslenskri náttúru til gagns og gamans.

Hæðarlínur kortsins og örnefni byggjast á ÍS50V grunni Landmælinga Íslands, með viðbótum og leiðréttingum.
Dýptarlínur í sjó eru frá Landhelgisgæslu Íslands - Sjómælingasviði.Jarðfræðikort af Suðvestururlandi
Kortið er prentað í prentsmiðjunni Odda.
Söludreifing kortsins er í höndum Forlagsins og mun verða væntanlegt í helstu bókaverslanir um helgina  11.-12. júlí.

 

Jarðfræðin

Jarðlög á jarðfræðikortinu spanna rúmlega 4 milljóna ára tímabil og veita góða innsýn í meginþætti í sérstæðri jarðfræði Íslands. Elstu jarðlögin eru í undirstöðum Akrafjalls en yngstu jarðlögin eru hraun frá sögulegum tíma, þeirra yngst eru hraun frá Reykjaneseldum 1211–1240.

Á kortinu eru 163 mismunandi hraun sem runnið hafa frá því að ísaldarjökull hvarf af svæðinu. Hraunin hafa verið aldursgreind með ýmsum aðferðum, einkum þó öskulögum, kolefnisgreiningum og afstæðri legu hraunanna. Hraunin eru aðgreind með litum eftir aldri en auk þess hefur hvert hraun sérstaka áletrun. Listi yfir hraunin er til hliðar við kortið og þar koma fram C14-aldursgreiningar þeirra ef til eru. Einnig er jarðfræðilegt nafn hraunsins í listanum auk örnefna á viðkomandi hrauni en sum hraunin bera mismunandi nöfn eftir stöðum. Dæmi um þetta er Búrfellshraun. Jarðfræðilega nafnið er kennt við gíginn Búrfell, sem hraunið er runnið frá, en hraunið gengur auk þess undir ýmsum nöfnum, eins og Garðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun, og eru þau þá höfð í sviga á listanum.

Valdir áhugaverðir staðir

Á kortinu er vísað á 40 áhugaverða staði sem merktir eru með gulum tölustöfum. Staðirnir er valdir með það í huga að þar megi sjá markverð, jarðfræðileg fyrirbæri, eitt eða fleiri, og í sumum tilfellum fléttast sagan saman við jarðfræðina. Í fæstum tilfellum er um venjubundna ferðamannastaði að ræða, heldur er verið að vísa á staði þar sem sjá má áhugaverð, jarðfræðileg fyrirbæri. Einnig var aðgengi haft í huga þegar þessi staðir voru valdir. 
Á vefsíðu ÍSOR má finna fróðleik um þessa staði og leiðbeiningar til ferðamanna um hvernig komast megi að þeim. Markmiðið er að veita almenningi og ferðamönnum haldgóðar upplýsingar til náttúruskoðunar á Suðvesturlandi. ÍSOR stefnir að því að ná samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu um að auka verulega við fjölda þessara staða á næstunni, enda af nógu að taka. Er það skoðun ÍSOR að í jarðfræði svæðisins felist veruleg tækifæri fyrir náttúrutengda ferðaþjónustu og fræðslu.
Skýringar á kortinu eru bæði á íslensku og ensku og sama mun gilda um vefsíðuna.

Eldfjallagarður á Reykjanesi

Af og til hafa hugmyndir um eldfjallagarð á Reykjanesskaga skotið upp kollinum, oftast sem áhugayfirlýsingar eða tillögur einstaklinga eða sveitarfélaga.  Í sumum tilfellum er talað um allan Reykjanesskaga en aðrir hugsa um afmarkaðri svæði. Haustið 2009 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur ályktun þess efnis að undirbúa skyldi vinnu um Eldfjallagarð á Reykjanesi í samráði við önnur sveitarfélög á höfuðborgasvæðinu.
Jarðfræðingar ÍSOR búa yfir gríðarlegri þekkingu á jarðfræði landsins og í fórum ÍSOR eru gögn sem nota má til að gera sambærileg kort af stórum hlutum þess. Útgáfa þessa nýja, nákvæma jarðfræðikorts, sem nær frá Reykjanestá austur fyrir Þingvallavatn, og opnun upplýsingasíðunnar á vefnum eru dæmi um það sem gera má úr þessari þekkingu.
ÍSOR vill leggja sitt af mörkum til skipulegrar kortlagningar jarðminja landsins og þeirrar hugmyndar að líta megi á allt Suðvesturland sem einn eldfjallagarð þar sem saman fari einstæð náttúra og gróandi mannlíf.