[x]
25. júní 2018

ÍSOR gefur út nýtt jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Austurgosbelti. Tungnaáröræfi.

Út er komið nýtt jarðfræðikort af Austurgosbelti landsins, Tungnaáröræfum. Kortið er í mælikvarðanum 1:100 000. Á meðal náttúrperlna á kortinu má nefna Heklu, Þjórsárdal, Landmannalaugar, Veiðivötn, Langasjó,  Jökulheima, Eldgjá og Lakagíga.

Kortið byggist á fjölmörgum jarðfræðikortum í stærri mælikvarða, sem unnin hafa verið fyrir verkkaupa ÍSOR og forvera þess, Orkustofnun, auk eldri útgefnum yfirlitskortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Móbergsmyndanir og nútímahraun skipa stærstan sess í gosbeltinu. Móberginu er skipt í fjóra aldurshópa og alls hafa nú um 80 hraun verið greind í aldursflokka með hjálp gjóskulaga. Jarðhiti er sýndur á kortinu ásamt helstu dráttum höggunar og jökulhörfunar.

Á bakhlið kortsins eru lýsingar og litmyndir af 24 áhugaverðum stöðum.

Jarðfræðingarnir Ingibjörg Kaldal, Árni Hjartarson, Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson og Skúli Víkingsson unnu að gerð kortsins. Kortið byggist að töluverðu leyti á vinnu Elsu G. Vilmundardóttur jarðfræðings. Á árunum 1983-1999 vann hún að kortlagningu móbergs á Tungnaáröræfum ásamt Snorra P. Snorrasyni jarðfræðingi. Elsa vann að yfirlitsskýrslu og jarðfræðikorti þegar hún lést vorið 2008, þá 75 ára gömul. Móberg er samheiti yfir jarðmyndanir sem myndast hafa við eldgos undir jökli. Ásýnd móbergsins er magvísleg, túff, túffbreksía, bólstrabreksía, bólstraberg og kubbaberg, allt eftir aðstæðum í umhverfi gosstöðvanna undir jöklinum. Á korti Elsu og Snorra er móberginu skipt í 80 myndanir, byggt á útbreiðslu og efnasamsetningu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra, Ingibjörg Kaldal jarðfræðingur, Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR, Herdís Helga Schopka sérfræðingur og Stefán Guðmundsson skrifstofustjóri og stjórnarmaður ÍSOR.

Kortahönnuðir eru Albert Þorbergsson og Guðrún Sigríður Jónsdóttir.
Við útgáfu kortsins naut ÍSOR veglegs stuðnings Landsvirkjunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Á myndinni hér til hliðar má sjá Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra taka á móti eintökum af kortinu. Auk hans eru frá vinstri Ingibjörg Kaldal jarðfræðingur, Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR, Herdís Helga Schopka sérfræðingur og Stefán Guðmundsson skrifstofustjóri og stjórnarmaður ÍSOR.

Frá árinu 2010 hefur ÍSOR gefið út jarðfræðikort af gosbeltum landsins í mælikvarðanum 1:100 000. Þetta kort er það fjórða í röðinni. Önnur kort eru:

  • Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100 000 (2. útg. 2016)
  • Jarðfræðikort af Norðurgosbelti. Syðri hluti - Ódáðahraun 1:100 000 (útg. 2015)

  •  Jarðfræðikort af Norðurgosbelti. Nyrðri hluti 1:100 000 (útg. 2012)

Auk þess gaf ÍSOR út jarðfræðikort af Íslandi í mælikvarðanum 1:600.000 árið 2014.

  • Berggrunnskort af Íslandi 1:600 000 (útg. 2014)

Hægt verður að nálgast kortið í bókaverslunum Eymundsson og hjá Forlaginu sem og hjá upplýsingamiðstöðvum víða um land. Forlagið selur einnig jarðfræðikortin óbrotin. Á jarðfræðikortavefsjá ÍSOR verður jafnframt hægt að skoða kortið og önnur útgefin kort ÍSOR á rafrænu formi.

Jarðfræðikort af Austurgosbelti. Tungnaáröræfi.

Bakhlið jarðfræðikortsins af Austurgosbeltinu.