[x]
14. ágúst 2019

ÍSOR á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu, IIGCE 2019

Sameiginlegur kynningarbás ÍSOR, Verkís og Mannvits í Indónesíu. ÍSOR tekur þessa dagana, 13.-15. ágúst, þátt í alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu í Jakarta í Indónesíu, IIGCE 2019. Yfirskrift ráðstefnunnar er Making Geothermal the Energy of Today. Samhliða ráðstefnunni er haldin sýning þar sem ÍSOR er með sameiginlegan kynningarbás með Mannvit, Verkís og CBN frá Indónesíu. Íslensku fyrirtækin hafa öll komið að jarðhitauppbyggingunni hér á landi og starfað saman að verkefnum í erlendis. Verkefni ÍSOR í Asíu hafa bæði varðað lág- og háhita. Að auki hefur ÍSOR komið að þjálfun þeirra 244 nema frá Asíu sem Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur útskrifað.

Jarðhiti er mjög víða að finna á eldfjallaeyjum Indónesíu, m.a. á eyjunum Java, Sumatra, Bali, Nusa Tenggara og Sulawesi. Í Indónesíu eru framleidd 1948 MW af orku með jarðvarma, og er landið í öðru sæti yfir þau lönd sem nýta jarðhita hvað mest. Þetta er einungis um 5% af orkuþörf landsins, sem reiðir sig enn mest á jarðefnaeldsneyti. Yfirvöld vonast til að auka framleiðsluna enn frekar eða í 7000 MW árið 2025.
Heimild: www.thinkgeoenergy.com, www.geoenergymarketing.com

Vefsíða ráðstefnunnar er http://www.iigce.com/

Starfsfólk á kynningarbásnum.