[x]
9. júní 2004

ÍSOR aðili að rekstri fimmtándu öflugustu tölvu Norðurlanda.

ÍSOR aðili að rekstri fimmtándu öflugustu tölvu Norðurlanda.

Háskóli Íslands, Raunvísindastofnun, Íslenskar orkurannsóknir, Orkustofnun, Hafrannsóknastofnun, Reiknistofa í veðurfræði og Veðurstofan standa að verkefninu með stuðningi RANNÍS. Hjá ÍSOR verður tölvan fyrst og fremst notuð við útreikninga á afkastagetu jarðhitakerfa. 

Ýmsar leiðir eru til að tengja saman margar smátölvur eða borðtölvur og nýta reikniafl þeirra allra samtímis. Á undanförnum misserum hefur aðferð, sem kennd er við Bjólf er glímdi við óvættinn í Bjólfskviðu og byggir á Linux-stýrikerfinu, náð hvað mestri hylli, enda tiltölulega einfalt að setja saman slíkan klasa sem stækkað getur og minnkað eftir því sem þurfa þykir og er mjög áreiðanlegur hvað rekstraröryggi varðar.

Bjólfsklasar hafa nokkrir verið settir upp hér á landi en fyrir stuttu var gangsettur slíkur klasi sem kallast Bjólfur og mun síðar á árinu tengjast öðrum slíkum klasa, Snjólfi, svo úr verður gríðarlega öflug ofurtölva, sú fimmtánda öflugasta á Norðurlöndum.

Í fyrri áfanga klasans, Bjólfi, eru 130 HP-tölvur sem settar voru upp í Háskóla Íslands. Seinni áfanginn, Snjólfur sem eru 60 tvíörgjörva HP-vélar, verður settur upp í húsnæði ÍSOR og Orkustofnunar. Bjólfur og Snjólfur verða síðan tengdir með GigaBit Ethernet-tengingu og keyrðir á sameiginlegu biðraðakerfi.