[x]
13. janúar 2006

ÍSOR aðili að 3 nýjum samevrópskum rannsóknaverkefnum

Um þessar mundir er að hefjast vinna við þrjú ný samevrópsk verkefni á sviði jarðhita, sem hlotið hafa myndarlega styrki úr 6. rammaáætlun ESB á sviði vísinda og tækni og ÍSOR er aðili að. Um margra ára skeið hafa jarðhitarannsóknir átt lítið upp á pallborðið í orkuáætlunum ESB. Hefur nánast allur stuðningur ESB við rannsóknir á þessu sviði einskorðast við eitt stórt verkefni sem miðar að orkuvinnslu úr heitu og þurru bergi í Rínardal.  Fulltrúar Íslands í stjórnarnefndum rammaáætlunarinnar hafa með dyggum stuðningi Rannís og ráðuneyta iðnaðar og menntamála unnið skipulega að því að fá þessu breytt og vakið athygli á möguleikum jarðhita í orkubúskap heimsins og vísað í því sambandi til mikils árangurs Íslendinga á þessu sviði. Þessi barátta leiddi til þess að ESB opnaði rannsóknarsjóði sína fyrir jarðhitarannsóknum á s.l. ári. Í framhaldi af því höfðu ÍSOR, GeoForschungZentrum í Potsdam og franska jarðfræðistofnunin BRGM forgöngu um að mynda öfluga samevrópska rannsóknahópa sem sendu inn þrjár umsóknir um styrki til jarðhitaverkefna. Að auki var ÍSOR aðili að fjórðu umsókninni undir forystu grískrar stofnunar. Skemmst er frá því að segja að þrjár af þessum fjórum umsóknum hafa hlotið styrki og þá fjórðu vantaði herslumuninn á að ná fram að ganga. Vinna við þessi þrjú verkefni er nú um það bil að hefjast. Þessi verkefni heita I-GET, ENGINE og LOW-BIN. I-GET verkefnið gengur út á þróun jarðeðlisfræðilegra mælinga til leitar að djúpum og óhefðbundnum jarðhitakerfum, ENGINE felst í samhæfingu núverandi rannsóknar- og þróunarstarfa Evrópuríkja við rannsókna óhefðbundinna jarðhitasvæða og LOW-BIN felst í þróun tækni til raforkuvinnslu úr lághita. Öll þessi verkefni munu standa í um 3 ár.