[x]
30. apríl 2004

Íslenskir jarðhitasérfræðingar að störfum í Uganda.

Undanfarnar vikur hafa þrír íslenskir jarðhitasérfræðingar verið að störfum í Uganda,

tveir frá ÍSOR (Knútur Árnason og Hjálmar Eysteinsson) og einn frá Orkuveitu Reykjavíkur (Gestur Gíslason). Verkefnið felst í jarð- og jarðeðlisfræðilegri könnun á einu (Kibiro) af þremur jarðhitasvæðum í vestur Uganda og er kostað af Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Orkumálaráðuneyti Uganda. Verkefnið hófst í byrjun febrúar og mun ljúka um mánaðamótin apríl-maí. Verkefnið er að miklu leyti unnið af heimamönnum, en sumir þeirra hafa hlotið þjálfun við Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna hér á landi. Þáttur íslensku sérfræðinganna er einkum verkstjórn, fagleg þjálfun og úrvinnsla.

Í tengslum við verkefnið munu sérfræðingar frá ÍSOR sitja jarðhitaráðstefnu í Nairobi í Kenya dagana 20-23 apríl. Í Austur Afríku eru miklir möguleikar á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu, á slóðum þar sem mikil þörf er fyrir hreina orku.