[x]
9. nóvember 2005

Íslendingar standa fyrir málþingi í Kenía

Dagana 13-18. nóvember 2005 verður haldið í Kenya málþing fyrir stjórnendur jarðhitaverkefna í Austur Afríku. Það er Jarðhitaskólinn og Landsvirkjun Kenya (KenGen) sem standa fyrir málþinginu í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands,UNEP (United Nation Environmental Programme) og svo kallað Argeo-samstarf (African Rift Geothermal Facility). Fyrirlesarar koma frá ýmsum löndum, en flestir frá Kenya og Íslandi. Þeirra á meðal eru þrír frá ÍSOR Benedikt Steingrímsson, Knútur Árnason og Sverrir Þórhallsson.  Á málþinginu verður fjallað um jarðhita í Austur Afríku, skipulag við rannsóknir og virkjun jarðhitans og fjármögnun framkvæmda. Þá verður sagt frá nýlegri úttekt á því hvaða rannsóknartæki eru til í ARGeo-löndunum og hver þörfin er fyrir þjálfun heimamanna. ARGeo-löndin eru Djibouti, Eritrea, Eþíópía, Kenya, Uganda og Tanzania. Fulltrúar landanna munu í lok málþingsins segja frá jarðhitastarfseminni heima fyrir og þeim virkjunahugmyndum sem þeir leggja áherslu á að komi til framkvæmda á næstu árum.