[x]
5. október 2006

Hverasvæði eru síbreytileg

Í fréttum ríkisútvarpsins í gær, 4. október, var fjallað um breytingar sem orðið hafa undanfarið á háhitasvæðinu á Reykjanesi eftir gangsetningu Reykjanesvirkjunar. Gufustreymi hefur aukist mikið á hverasvæðinu, sem nú er orðið mun tilkomumeira ásýndar en áður var og líkara því sem var í byrjun 20. aldar. Nýlegar mælingar sérfræðinga ÍSOR sýna að gufuútstreymi hefur aukist um tæp 50% frá árinu 2005. Það er eðli jarðhitasvæða, einkum háhitasvæða, að hverir og laugar eru sífelldum breytingum undirorpin. Þannig getur hveravirkni ýmist aukist eða minnkað við sprungumyndun af völdum jarðskjálfta. Þetta kom t.d. mjög glögglega fram í Suðurlandsjarðskjálftunum árið 2000. Þekkt er að Geysir hrekkur í gang við stóra jarðskjálfta en dofnar er frá líður. Einnig geta kvikuinnskot hitað upp kerfin og jafnvel valdið hættulegum gufusprenginum eins og gerðist í Kröflueldum á áttunda ártug síðustu aldar. Algengt er að jarðhræringar, sem koma með nokkurra áratuga eða jafnvel alda millibili valdi mikilli aukningu í gufuútstreymi háhitasvæðanna, sem síðan minnkar eftir því sem frá líður. Meðfylgjandi myndir frá Reykjanesi eru teknar eru frá sama sjónarhorni. Önnur er málverk eftir þýska jarðfræðinginn Walther von Knebel frá árinu 1905, en um það leyti höfðu átt sér stað umtalsverðar jarðhræringar á svæðinu. Von Knebel drukknaði skömmu síðar í Öskjuvatni, sem kunnugt er. Hin er ljósmynd sem Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR tók um öld síðar. Á þessum myndum má glögglega sjá hversu mikið gufuhveravirknin hefur minnkað.  Svipað hefur verið að gerast á Þeistareykjum undanfarna áratugi, hveravirkni fer minnkandi. Í Hveragerði höfum við dæmi um hið gagnstæða, þar hafa nýjar hverssprungur verið að opnast eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem Sigurður G. Kristinsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR tók. Þegar vinnsla hefst á jarðhitasvæðum fellur þrýstingur í jarðhitakerfunum. Á lághitasvæðum leiðir það yfirleitt til þess að hverir og laugar þorna en koma upp aftur á nokkrum vikum eða mánuðum ef  orkuvinnslu er hætt. Á háhitasvæðum er þessu öfug farið.  Lækkaður þrýstingur í háhitakerfum leiðir til aukinnar suðu djúpt niðri í jörðinni. Við aukna suðu leitar meiri gufa til yfirborðs en áður og hveravirknin eykst.  Áratuga reynsla af vinnslu háhita á Íslandi hefur ýmist leitt í ljós óverulegar breytingar á hveravirkni á yfirborði eða aukingu. Hverir hverfa hins vegar ekki. Gerð er grein fyrir þessum áhrifum í skýrslum um mat á umhverfisáhrifum jarðhitavirkjana. Rétt er að fólk geri sér grein fyrir því að hverasvæði eru hættulegir staðir sem fara þarf um með gát. Breytingar geta valdið því að jarðvegur verður ótraustur á hverasvæðum og hætta er á að fólk stigi niður úr þunnum jarðvegi í 100°C heitt vatn eða leir með alvarlegum afleiðingum. Einnig er alltaf hætta á gufusprenginum sem eru stórhættulegar. Slík sprenging var fjölda manns að bana í Mið-Ameríku fyrir nokkrum árum og tilviljun ein réði því að ekki varð manntjón í mikilli gufusprengingu í Krísuvík árið 1999. Ummerki þeirrar sprenginar má sjá á meðfylgjandi myndum. Á háhitasvæðum landsins má  víða finna merki um að gufusprengingar hafi orðið í tímans rás. Málverk eftir Walther von Knebel frá 1905. Mynd úr Jarðhitabók Guðmundar Pálmasonar Hverasvæðið einni öld síðar. Ljósmynd Kristján Sæmundsson, ÍSOR Náttúrulegar breytingar á hverasvæðinu við Hveragerði. Ljósmynd Sigurður G. Kristinsson, ÍSOR.   Stór gígur eftir gufusprengingu á miðju ferðamannasvæðinu í Krísuvík árið 1999. Það var lán að ekki var fjöldi ferðamann þarna þegar sprengingin varð, tugir hefðu geta farist.  Ljósmynd Guðmundur Ómar Friðleifsson, ÍSOR Svona leit kaffisöluskúrinn á bílastæðinu í Krísuvík út eftir gufusprenginguna. Ljósmynd Guðmundur Ómar Friðleifsson, ÍSOR