[x]
13. febrúar 2020

Hugleiðingar um jarðhræringarnar við Grindavík í ársbyrjun 2020

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga. Jarðhræringarnar nærri Grindavík eru afar athyglisverðar frá vísindalegu sjónarmiði, bæði hvað varðar nýja þekkingu á jarðfræði landsins og tengslum þeirra við jarðhitakerfi og nýtingu þeirra.

Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur og forstjóri ÍSOR, setur hér fram hugleiðingar um jarðhræringarnar (sjá meðfylgjandi PDF-skjal). Hann varpar fram nýrri tilgátu um orsakir landrissins, sem hann telur líklegri en að um kvikuinnskot sé að ræða.

Tilgátan er eftirfarandi:

Jarðskjálftahrina, líklega með blöndu af sniðgengis- og  siggengisskjálftum, hófst 22. janúar. Þeir orsökuðust af venjulegri spennuuppsöfnun á flekamótunum sem ganga eftir Reykjanesskaga og fór yfir brotstyrk bergsins. Skjálftarnir ollu þrýstilækkun á 3-5 km dýpi á aflokuðu dýptarbili undir þeim hluta jarðhitakerfisins við Svartengi þar sem niðurdæling fer fram. Á þessu dýptarbili var vökvi í yfirmarksástandi. Þrýstilækkun vegna skjálftanna í lokaða rýminu á 3-5 km dýpi leiddi til þess að vökvinn færðist úr yfirmarksástandi í yfirhitaða gufu sem veldur verulegri rúmmálsaukningu og þar með landlyftingu. Sú staðreynd að hvorki varð merkjanleg innskotavirkni né eldgos á þeim stað þar sem stóru jarðskjálftarnir urðu bendir til þess að kvika sé ekki að streyma upp í efri hluta jarðskorpuna þar nærri.

Ef þessi tilgáta er rétt eru töluverðar líkur á því að undir vinnslusvæðinu í Svartsengi, einkum þó niðurdælingarsvæðinu, sé vökvi í yfirmarksástandi á 3-5 km dýpi sem nýta mætti til verulegrar aukinnar orkuframleiðslu í Svartsengi þegar fram líða stundir. Þetta gæti haft mikil og jákvæð áhrif á framtíðarhorfur jarðhitavinnslu HS Orku.

Nánar má lesa um tilgátuna og röksemdafærsluna á minnisblaði frá Ólafi: Hugleiðingar um jarðhræringarnar við Grindavík í ársbyrjun 2020.