[x]
1. mars 2006

Hreinsun holu RN-17 á Reykjanesi mistókst

Í síðasta mánuði var reynt að hreinsa holu RN-17 á Reykjanesi. Hún hafði laskast í blástursprófun í nóvember síðastliðnum. Hugsanlegt var að hola RN-17 yrði notuð til djúpborunar niður á 5 km þó endanleg ákvörðun þar um hefði ekki legið fyrir af hálfu Hitaveitu Suðurnesja hf, en djúpborunarverkefnið (IDDP) hefur bundið talsverðar vonir við þessa holu. Um síðustu helgi varð ljóst að ekki myndi takast að ná upp nokkrum tugum metra af álagsborstöngum og borkrónu neðan 1250 m dýpis. Í framhaldi af því varð ljóst að hola RN-17 mun ekki nýtast djúpborunarverkefninu til dýpkunnar, sem er mjög miður. Hola RN-17 er þó ekki með öllu ónýt, því fóðringarnar niður á 900 m eru heilar og hægt er að skábora út úr holunni þar neðan við og reyna að gera úr henni vinnsluholu og eru þau mál í skoðun. Hvað djúpborunarverkefnið varðar þá hefur Hitaveita Suðurnesja hf hugað að öðrum holum á Reykjanesi til djúpborunar líka og verða þær nú skoðaðar nánar á næstunni. Meira um þetta á IDDP vefnum hér til hliðar.