[x]
20. ágúst 2014

Holuhraun og kvikuflutningar frá Bárðarbungu

Atburðir undanfarinna vikna í Öskju og Bárðarbungu minna okkur á hvað náttúran er kvik og óútreiknanleg. Nauðsynlegt er að kanna hana vel til þess að geta brugðist við náttúruvá af ýmsu tagi.

ÍSOR hefur unnið að gerð nákvæmra jarðfræðikorta af gosbeltum landsins. Um þessar mundir er ÍSOR að vinna að gerð jarðfræðikorts af syðri hluta norðurgosbeltisins í mælikvarða 1:100 000. Það er í framhaldi af korti af nyrðri hlutanum sem kom út í árslok 2012. Nýja kortið nær frá Sellandafjalli í norðri og suður fyrir Kverkfjöll. Áætluð útkoma kortsins er vorið 2015 ef tekst að afla fjár til þess að ljúka verkinu. Kortið byggir að miklu leyti á fyrirliggjandi gögnum en fyllt verður í eyður með kortlagningu og fjarkönnun af ýmsu tagi. Helstu nýjungar eru þær að fjöldi hrauna hafa verið aldursgreind með gjóskulagarannsóknum, en gossaga Ódáðahrauns hefur lítið verið rannsökuð til þessa.

 

 

Kortið sýnir hvernig þróun hefur verið í skjálftavirkni frá því að jarðskjálftahrinan hófst aðfararnótt laugardagsins 16. ágúst (yfirfarin skjálftagögn af vef Veðurstofu íslands) ásamt bráðabirgðajarðfræðikorti af svæðinu framan við Dyngjujökul. Framan af var virknin mest umhverfis Bárðarbungu og Kistufell, en hefur síðan færst meira til austurs og er nú mest áberandi á NA-SV lægri línu sem stefnir nú niður miðjan Dyngjujökul og hefur verið að færast niður eftir honum dag frá degi. Kvika virðist streyma þar eftir sprungum á um 10-14 km dýpi í jarðskorpunni. Hvort hún nær til yfirborðs um síðir eða mun storkna í iðrum jarðar og verða að berggöngum mun tíminn leiða í ljós.

Framan við Dyngjujökul miðjan er Holuhraun. Í bókum sínum um Ódáðahraun leiðir Ólafur Jónsson líkur að því að hraunið hafi komið upp í eldgosi nálægt jökuljaðrinum árið 1797. Vitnar hann í Espólín sem segir um það ár: „Þá sá Jón bóndi Jónsson í Reykjahlíð norður, réttorður maður, eldsloga nokkura suður á fjöllum tvö kvöld um veturinn, og varð vart við öskufall; þess urðu og fleiri varir“. Ólafur rekur síðan ferðalýsingar manna um svæðið á þessum árum og dregur af þeim þá ályktun að hraunið hafi ekki verið runnið 1794 þegar Pétur Brynjólfsson fór suður með jöklinum. Hann var heimildarmaður Sveins Pálssonar sem ekki getur Holuhrauns í sínum lýsingum. Um 40 árum síðar fór Pétur Pétursson bóndi á Hákonarstöðum á Jökuldal ferð vestur með norðurjaðri Vatnajökuls og lýsir miklu „vonzkuhrauni“ við jökuljaðarinn milli Jökulsár á Fjöllum og Urðarháls. Hraunið var svo illt yfirferðar að þeir voru nærri búnir að missa hesta sína því hófar þeirra tættust sundur. Ekkert annað hraun kemur til greina en Holuhraun, sem þá hefur ekki verið orðið eins sandorpið og seinna varð. Aðalupptakagígur Holuhrauns er um 350 m utan við ystu jökulgarða Dyngjujökuls og svo virðist sem hraunjaðarinn liggi rétt utan jökulgarðanna. Athyglisvert er að leiðin sem kvikan frá Bárðarbungu virðist fara eftir núna er ekki fjarri því að stefna að upptökum Holuhrauns. Ef til vill er Holuhraun því myndað í svipaðri atburðarás og nú er í gangi. Þess ber þó að geta að við vitum ekki til þess að til séu efnagreiningar á Holuhrauni sem gætu sýnt hvort það er ættað úr eldstöðvakerfi Bárðarbungu eða Öskju. Lýsingar Guttorms Sigbjarnarsonar jarðfræðings á hrauninu benda þó fremur til Öskju.

Ekki er þó hægt að fullyrða að gosið 1797 hafi ekki náð inn undir jökulinn. Urðarrani einn mikill liggur niður jökulinn skammt suðaustan Holuhrauns og skiptir Dyngjujökli í tvær tungur. Hann er um 4 km langur og myndast slíkir urðarranar þar sem jökullinn rýfur jökulsker eða fjall sem er stutt undir yfirborði hans. Ekkert bendir þó til þess að þar sé um framhald gossprungunnar að ræða, en á hæðarlíkani af undirlagi jökulsins (í jöklabók Helga Björnssonar) er aflangt fjall eða hæð skammt frá þeim stað þar sem urðarraninn kemur upp á yfirborð jökulsins. Ekki er þekkt neitt jökulhlaup í Jökulsá á Fjöllum árið 1797 sem enn frekar styður þá hugmynd að gosið hafi ekki náð inn undir jökul. Ekki er vitað hvar jökuljaðar Dyngjujökuls lá á þessum tíma en jökullinn er þekktur framhlaupajökull. Síðast hljóp hann árið 1999 um 1250 m.

Fátt er hægt að segja um framhald þessara atburða. Ef til vill deyr skjálftahrinan út fyrr eða síðar líkt og gerðist við svipaða kvikuflutninga við Upptyppinga fyrir fáum árum. Fari svo að kvikan nái til yfirborðs svo til eldgoss komi, mun jökulhlaup af völdum þess verða þeim mun minna sem upptökin verða nær jökuljaðrinum. Farsælast yrði ef gosið yrði utan jökuljaðars eins og í tilviki Holuhrauns.

Skúli Víkingsson jarðfræðingur

Ingibjörg Kaldal jarðfræðingur