[x]
12. september 2004

Hiti í Kerlingarfjöllum

Kerlingarfjöll eru virk megineldstöð og mest af jarðhitanum virðist vera tengdur unglegum öskjubrotum. Hveravirkni er mikil og óvíða munu laugar, hverir og gufuaugu jafn þéttstæð og þar. Svæðið er allt sundursoðið og þótt þar sé mikil og stöðug virkni taka einstök hveraaugu örum breytingum, gamlir hverir hverfa en nýir taka við. Fyrir einu til tveimur árum komu t.d. upp leirhverir á merktri gönguleið á háum og mjóum hrygg milli djúpra gilja í Neðri-Hveradölum. Nú eru þar ólgandi pyttir í víðum leirgígum sem sletta úr sér steingráum aur á vegfarendur. Hverasvæðin eru þrjú: Neðri- og Efri-Hveradalir og Hverabotn. Neðri-Hveradalir eru aðalsvæðið og þar er mest um göngufólk. Efri-Hveradalir eru í Kisubotnum nokkru sunnar. Báðir eru þeir í aðalöskju Kerlingarfjalla. Hverabotn er litlu vestar. Þar er lítil mannaferð enda yfir fjallshrygg og jökulfönn að fara úr Hveradölum. Þetta er smátt og mjög afmarkað svæði sem virðist vera í tengslum við eldri öskju. Öflugasti hverinn er blásandi gufuauga í lækjargili við suðurjaðar svæðisins. Þarna mældist hæsti hiti í öllum Kerlinarfjöllum, um 140°C. Mælingin var gerð með tveimur hitastöfum og bar þeim þokkalega saman. Hér er því um yfirhitaða gufu að ræða. Í gufuauganu virtust liggja hnefastórir steinar en þegar hitastaf var stungið milli þeirra dúuðu þeir upp og niður og flutu til enda kom í ljós að þeir svifu um í gufublæstrinum. Þetta er hæsta skráða hitamæling í náttúrulegu gufuauga á landinu. Það er nokkur ráðgáta hvernig yfirhituð gufa getur náð til yfirborðs. Vatn sýður við 140°C undir 4 bara þrýstingi, þ.e. á um 40 m dýpi undir grunnvatnsborði. Aðflæði grunnvatns verður að vera mjög takmarkað þar ofar en þó nægilegt til að halda uppi þrýstingi. Þetta fyrirbrigði er vel þekkt í borholum en sjaldgæft í þetta miklum mæli í hverum.