[x]
4. nóvember 2008

Hitamet í borholu slegið

ÍSOR annast borholumælingar Landsvirkjunar í Kröflu. Þegar jarðborinn Jötunn var að bora holu nr. KJ-39 vöknuðu fljótlega grunsemdir um mjög háan hita neðan við 2800 m. Í hitamælingu sem gerð var þann 19. október mældist hitinn yfir 372°C, sem er aðeins 2°C frá svokölluðum yfirmarkshita vatns (supercritical temperature). Síðan gerðist það þann 21. október að hitinn mældist hvorki meira né minna en 385,6°C, sem er hæsti hiti sem mælst hefur í borholu hérlendis. Báðar mælingarnar voru gerðar innan í borstreng með ádælingu utan með honum. Áður hefur svipað hitastig sést við mælingu í borholu nr. NJ-11 á Nesjavöllum 1985, en þá fór hitinn í 381°C. Við yfirmarkshita vatns (374,15°C) verður sú breyting að vatnið hefur samtímis bæði vökva- og gufueiginleika. Eðlismassi vökva- og gufufasans verður sá sami, þ.e. ekki er unnt að sundurgreina þá. Myndin sýnir tvær umræddar mælingar ásamt suðumarksferli miðað við vatnsborðið innan í stöngunum og yfirmarkshita vatns.