[x]
24. júlí 2012

Heitt vatn í Kjós

Jarðborinn Nasi frá RæktunarsambandinuKjósarhreppur stendur núna fyrir borun heitavatnsholu í landi Möðruvalla. Boraðir hafa verið 556 m og sjálfrenna um 10 sekúndulítrar af um 74°C heitu vatni úr holunni.

Rennslið hefur aukist eftir því sem dýpra hefur verið borað en gert er ráð fyrir að borað verði niður á um 800 m dýpi. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða er með jarðborinn Nasa við verkið.

Áður en borun hefst skiptir miklu máli að valinn sé réttur borstaður. Kjósin er á svonefndu köldu svæði því engin merki um jarðhita sjást á yfirborði. Á þessu svæði eru sprungur í jarðlögum grannar en vatnið rennur neðanjarðar í gegnum sprungur.

Nokkur aðdragandi er að borun sem þessari og hafa farið fram ýmsar rannsóknir til að tryggja hámarksárangur vinnsluholunnar. Jarðhita, sem ekki verður vart á yfirborði, er mögulegt að finna með ýmsu móti. Á undanförnum áratugum hefur ÍSOR beitt jarðfræðiþekkingu sinni og ýmsum jarðeðlisfræðilegum aðferðum við jarðhitaleit, eins og með segulmælingum og viðnámsmælingum.  Einnig hafa hitastigulsmælingar í grunnum (þ.e. 50-100 m djúpum) rannsóknarholum reynst mjög þýðingarmiklar á síðari árum.

Sniðið sýnir hitastigul norðvestan frá Hvassnesi

Í landi Möðruvalla hafa átján rannsóknarholur verið boraðar og hitamælingar í þeim beindu sjónum manna að afgerandi hitastigulshámarki (300 C°/km). Þar var vinnsluholunni (800-1000 m djúpri) að lokum valinn staður fyrir tæpum tveimur árum. Verið er að bora holuna ofan í þetta hitahámark og virðist sem nokkuð vel hafi til tekist um staðsetningu og þó innrennslisæðar hafi nú þegar fengist á minna en 400 m dýpi er vonast til að meira vatn náist á meira dýpi og jafnvel heitara. Ekki er enn vitað hve mikið holan getur gefið með dælingu en væntingar heimamanna eru um að ca. 15 sekúndulítrar fáist úr henni.