[x]
1. desemeber 2004

Heitt vatn fundið í Húsadal í Þórsmörk.

Fyrir fjórum árum voru boraðar tvær holur í Húsadal í Þórsmörk, önnur eftir köldu neysluvatni og hin til jarðhitaleitar.  Báðar holurnar skiluðu jákvæðum árangri, önnur gnótt af köldu vatni, en hin gaf fyrirheit um jarðhita og endaði sú hola í 276 m dýpi með um 27°C hita.  Með dýpkun holunnar voru líkur taldar á að ná mætti 40-50°C heitu vatni ef vel gengi.  Í haust var ákveðið að dýpka holuna og lauk boruninni síðastliðna helgi.  Holan er rúmlega 1 km djúp og gefur í sjálfrennsli um 2,5 lítra á sekúndu af um 40°C heitu vatni.  Holan er nú að jafna sig eftir borun og á eftir að hitna eitthvað.  Með virkjun holunar er líklegt að ná megi upp um 50-60°C heitu vatni.  Aðgerðin heppnaðist vonum framar og mun stórbæta alla aðstöðu félagsins í Þórsmörk.  Kynnisferðir ehf. hafa rekið ferðaþjónustu í Húsadal í Þórsmörk frá því að Austurleið-SBS sameinaðist Kynnisferðum fyrir rúmu ári síðan.  En Austurleið hafði á síðastliðnum áratugum byggt upp mikla ferðamannaaðstöðu í Húsadal í Þórsmörk.  Þegar er hafin vinna við undirbúning á virkjun borholunnar og framtíðaruppbyggingu á svæðinu með áherslu á stóraukna þjónustu fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn.  Heit vatnið er notaleg viðbót í náttúruparadísina Þórsmörk og ferðaþjónustuna þar, og er eins víst að heiti potturinn muni í framtíðinni bíða gönguhrólfa á “Laugaveginum” og “Fimmvörðuhálsinum” sem báðar enda í  Þórsmörk. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. sá um borunina, og Guðmundur Ómar Friðleifsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum Orkurannsóknum (ÍSOR) annaðist jarðhitaráðgjöfina.