[x]
10. október 2005

Heitt vatn finnst nærri Hofsósi

Frá borun í Hrolleifsdal. Ljósmynd Magnús Ólafsson Undanfarin ár hefur staðið yfir jarðhitaleit á vegum Skagafjarðarveitna  í Hrolleifsdal. Markmiðið var að finna heitt vatn fyrir Hofsós og nærliggjandi byggðir. Hofsós  er eitt þeirra þorpa sem enn hafa ekki fengið hitaveitu.  Íslenskar orkurannsóknir  hafa annast rannsóknir vegna leitarinnar undir stjórn Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings. Niðurstöður þeirra leiddu til borunar djúprar rannsóknarholu við Bræðrá, utan til í dalnum. Holan er nú rúmlega 900 m djúp og í henni tvær heitar æðar, önnur rúmlega 60°C, hin rúmlega 80°C. Æðarnar skila með dælingu vatnsmagni sem útlit er fyrir að duga muni í hitaveitu á Hofsósi og í  byggðina frá borstað þangað inn eftir. Leiðin á milli er um 13 km. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða boraði holuna. Næst liggur fyrir að prófa holuna og mun þá skýrast betur hver afköst hennar eru. Með hitaveitu á Hofsósi fækkar þeim byggðarlögum á landinu sem enn hafa ekki fengið hitaveitu. Nú njóta tæplega 90% landsmanna þeirra gæða að hafa hitaveitu. Ríkið ver um 1 milljarði árlega til að niðurgreiða rafmagn til húshitunar hjá þeim 10% landsmanna sem búa við rafhitun. Því eru það augljóslega miklir hagsmunir ríkissjóðs og viðkomandi byggðarlaga að haldið sé áfram markvissum jarðhitarannsóknum á þeim stöðum sem enn hafa ekki fengið hitaveitu og fjármagn til þeirra verði tryggt.