[x]
10. júlí 2008

Heimsókn ráðherra raforkumála og endurnýjanlegrar orku í Ekvador

Alecksey Mosquera Rodriguez, ráðherra raforkumála og endurnýjanlegrar orku í Ekvador er í heimsókn á Íslandi dagana 7.-10. júlí í boði iðnaðarráðherra og heimsótti m.a. Orkugarð síðastliðinn mánudag. 

Ráðherrann sýndi mikinn áhuga á orkumálum Íslendinga og var tilgangur ferðar hans m.a. að kynna sér þann árangur sem Íslendingar hafa náð í nýtingu á jarðhita.  Ekvador hefur mikla möguleika til jarðhitanýtingar en lítið hefur verið rannsakað eða framkvæmt á því sviði síðan í byrjun níunda áratugarins, þar sem stjórnvöld hafa nær eingöngu einbeitt sér að nýtingu olíu í landinu.  Ekvador er eldfjallaland og býr yfir miklum auðlindum í formi olíu og er í hópi fjögurra stærstu útflutningslanda olíu í S-Ameríku. 

Ráðherrann lýsti yfir áhuga á samstarfi við Íslendinga á hugsanlegri aukinni nýtingu á jarðhita í Ekvador.  Fyrir utan Orkugarð heimsótti ráðherrann. m.a. Enex, Geysir Green Energy, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og átti tvívegis fund með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra. Í Orkugarði kynntu fulltrúar ÍSOR, Orkustofnunar, Jarðhitaskóla Sameinuð þjóðanna og Þróunarsamvinnustofnunar starfsemi sína en einnig kynnti ráðherrann sjálfur orkumál í Ekvador. Talið er að Ekvador geti nýtt um 1700 MW af jarðhita til rafmangsframleiðslu í landinu, en eins og staðan er í dag er árstíðabundin skortur á rafmagni í Ekvador sökum þurrka, en rafmagn þar er að miklu leyti framleitt með vatnsafli sem ekki er til staðar allt árið.  Oft kemur til skömmtunar á rafmagni sem hefur slæm áhrif á afkastagetu fyrirtækja og þ.a.l. á hagvöxt í landinu.  Nýting jarðhitans væri tvímælalaust lausn að mati ráðherrans.

Ráðherran frá Ekvador ásamt fundarmönnum.